Verkföllum Eflingar og VR sem áttu að hefjast á miðnætti hefur verið aflýst en þetta staðfesta forsvarsmenn verkalýðsfélaganna og Samtaka atvinnulífsins en grundvöllur hefur skapast fyrir nánari samræðum á milli aðila.

„Við ákváðum að aflýsa þeim aðgerðum sem til stóð að fara í miðnætti og gera alvöru atlögu að því að ná saman um helgina. Við teljum að grundvöllur sé kominn til að byggja á til að ræða saman af einhverri alvöru,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR í samtali við kvöldfréttir Stöðvar 2.

„Við höfum sammælst um það að hér sé kominn umræðugrundvöllur og við munum nýta næstu daga til að ganga frá því ef mögulegt er, segir Halldór Benjamín, formaður Samtaka atvinnulífsins í samtali við Stöð 2. „Markmiðið er skýrt að eyða þeirri óvissu sem legið hefur eins og mara á þjóðfélaginu.“

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar ,segir í samtali við RÚV vera þakklátur félagsmönnum sem hafi verið í eldlínunni við að skipuleggja aðgerðir en þó að aðgerðum hafi verið frestað nú, standi enn aðgerðir sem hafi verið skipulagðar eftir það. Aðgerðir okkar hafa skilað þeim árangri að það er loksins kominn viðræðugrundvöllur,“ segir Viðar. Aðspurð í kvöldfréttum RÚV hvort að þær verkfallsaðgerðir sem skipulagðar hafa verið eftir helgi séu enn á döfinni segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar svo vera.

„Þau standa enn, við bara tókum þessa ákvörðun í ljósi þess að við lítum svo á að loksins sé kominn raunverulegur viðræðugrundvöllur en svo sjáum við bara til hvað gerist á næstu dögum. Við værum ekki komin hingað nema vegna þess að verkfallsvopnið er beitt vopn, það bítur. Geta félagsmanna okkar til að standa saman hefur orðið okkur ljós og að mínu mati skilað okkur hingað.“

Fréttin hefur verið uppfærð.