Verkfall sem hefjast átti í álveri Rio Tinto í Straumsvík (ISAL) á morgun hefur verið frestað um viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá verkalýðsfélaginu Hlíf.

„Í dag var gengið frá samkomulagi við ISAL um að fresta verkfallsaðgerðum sem hefjast áttu á morgun, föstudag, um eina viku,“ segir í tilkynningunni.

„Þetta er gert til að gefa samninganefndum meiri tíma til að ná saman um nýjan kjarasamning.“ Náist samningar ekki fyrir þann tíma hefjast verkfallsaðgerðir þann 23. október í samræmi við fyrri boðun.