Verk­fall 700 hótel­starfs­manna innan Eflingar verka­lýðs­fé­lags hófst klukkan 10 og stendur það fram til mið­nættis. Fé­lags­dómur kvað upp úr­skurð sinn í gær þess efnis í gær að at­kvæða­greiðsla Eflingar um verk­falls­boðunina stæðist lög. 

„Mér finnst þetta vera mjög merki­legur dagur. Það er ó­trú­lega langt síðan verka- og lág­launa­fólk á höfuð­borgar­svæðinu fór í verk­fall,“ segir Sól­veig Anna Jóns­dóttir í Frétta­blaðinu í dag. 

Verk­fall hótel­þerna nær til allra sem vinna við her­bergis­þrif, þrif á al­mennum rýmum og þvott á hótelum og gisti­heimilum á fé­lags­svæði Eflingar; Reykja­vík, Kópa­vogur, Sel­tjarnar­nes, Mos­fells­bær, Hafna­fjörður, Garða­bær, Kjós, Gríms­nes og Grafningar­hreppur, Hvera­gerði og Sveitar­fé­lagið Ölfus. 

Á vef Eflingar segir að starfs­menn fé­lagsins hafi heyrt af hótel­rek­endum sem hafi í huga að stunda verk­falls­brot. For­dæmir Efling slík á­form. 

„Á­hyggju­fullir hótel­starfs­menn hafa tjáð mér að það séu uppi á­form um ýmis brot, svo sem að hindra starfs­menn í að fara í verk­fall sem þrífa al­mennings­rými og sinna þvottum. Sum­staðar er verið að boða starfs­menn sem al­mennt vinna ekki við þrif til að mæta fyrr og sinna þeim með her­bergis­þernum, bæði til að ná að klára þrif fyrir kl 10:00 og einnig eftir að verk­fall hefst,“ er haft eftir Val­gerði Árna­dóttur, starfs­manni á fé­lags­sviði Eflingar. 

Í dag er al­þjóð­legur bar­áttu­dagur kvenna og hafa starfs­menn verið hvattir til að fara í Gamla bíó til að taka þátt í dag­skrá og skrá sig fyrir greiðslu úr vinnu­deilu­sjóði. Greiddar verða 12.000 krónur að frá­dregnum skatti og verður greiðslan af­greidd í lok mánaðar. 

Í Gamla bíó verður jafn­framt dag­skrá frá 10 til 18.30. Klukkan 16 hefst síðan kröfu­ganga sem farin verður fram­hjá helstu hótelum í mið­bænum. Gengið verður frá Gamla bíó. 

Klukkan 17 heldur dag­skráin á­fram undir fundar­stjórn Drífu Snæ­dal, formanns ASÍ, við Gamla bíó. Erindi halda Sanna Magda­lena Mörtu­dóttir, Nicho­le Leigh Mo­sty, Magga Stína Blön­dal og Arna Jakob­ína Björns­dóttir. Tón­listar­at­riði eru í höndum Spaða­bana, Guð­laugar Fríðu og Kvenna­kórsins Impru.