„Ég vona svo sannarlega að það komi ekki til átaka. En eins og ég met ástandið þá er stemningin því miður þannig að einhverjir aðilar virðast ætla að láta á það reyna að fremja það sem við skilgreinum sem verkfallsbrot,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, en sólarhringsverkfall félagsins og VR hófst á miðnætti.

Verkalýðsfélögin og Samtök atvinnulífsins (SA) hittust á fundi hjá ríkissáttasemjara klukkan tíu í gærmorgun og var áformað að fundað yrði í klukkustund. Eitthvað kom fram á fundinum sem breytti þeim áformum því ákveðið var að framlengja fundinn. Þurftu fjölmiðlamenn að víkja og máttu deiluaðilar ekkert tjá sig um viðræðurnar.

Fundi lauk upp úr klukkan sjö í gærkvöld án þess að verkfalli væri frestað. Ekki hefur verið boðað til næsta fundar.

„Þetta fjölmiðlabann er þannig að það nær yfir allt sem viðkemur þessum viðræðum sem eru í gangi,“ segir Sólveig Anna.

Hún segir að Efling og VR verði að einhverju leyti með sameiginlega verkfallsvörslu í dag.

„Við munum fara á milli hótela og sinna eftirliti með rútum líka. Þegar kemur að hótelunum munum við náttúrulega sérstaklega fara á þau hótel sem gerðust sek að okkar mati um einhvers konar verkfallsbrot 8. mars.“

Eins og í verkfallinu fyrir tveimur vikum mun Efling standa fyrir dagskrá og aðgerðum í dag. ­Þannig verður samstöðufundur rútubílstjóra í Vinabæ og hótelstarfsfólk mun fara á milli hótela þar sem verða kröfustöður.

„Ég myndi ekki segja að ég væri sannfærð um það að dagurinn muni ganga eitthvað snurðulaust fyrir sig. Það er alls ekki tilfinningin sem ég er með. Ég reikna með því að okkur muni berast ýmsar fregnir af alls konar rugli og vitleysu.“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir daginn sorgardag fyrir allt samfélagið í heild. „Það er sorglegt að VR af öllum stéttarfélögum landsins sé að grípa til verkfalla með Eflingu. Það er ljóst að ekki er einhugur innan VR um þessa aðferðafræði, enda var verkfallið samþykkt með minnsta mögulega mun.“