„Þetta mál sem kom upp hjá Sorpu sameinar tvennt sem ég hef mikinn áhuga á að bæta. Annars vegar málefni byggðasamlaga og hins vegar opinber innkaup sveitarfélaga,“ segir Theódóra S. Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi BF-Viðreisnar í Kópavogi.

Málefni Sorpu voru til umræðu á bæjarstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag. Þar var samþykkt að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Sorpu í tengslum við 1,4 milljarða viðbótarkostnað við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar og stækkun móttökustöðvar ásamt kaupum á tækjabúnaði.

Theódóra lagði á fundinum fram bókun sem var studd af öllum minnihluta bæjarstjórnar. Þar er lagt til að neyðarstjórn, skipuð sérfræðingum í fjármálum og mannvirkjagerð, verði skipuð til að taka við verkefninu af stjórn Sorpu. Slík leið hafi verið farin hjá Strætó þegar hlutir hafi farið úrskeiðis.

Að mati Theódóru er ýmislegt í vinnubrögðum í málinu sem varla geti talist mistök. „Það gleymdist að gera ráð fyrir sökkli á húsið, áætlanir reyndust rangar og svo gleymdist að gera ráð fyrir verðbótum. Þar að auki var fjármögnun einfaldlega ekki tryggð.“

Theódóra segir lýðræðishalla ríkja í byggðasamlögum eins og Sorpu og kallar eftir breytingum. „Mér finnst að stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ætti að vera stjórn þessara byggðasamlaga. Þetta er fyrirbæri sem er gamaldags, ólýðræðislegt, dýrt og það ber enginn ábyrgð á neinu þegar eitthvað fer úrskeiðis.“