Staða efnahagsmála er snúin þessa dagana en heimilin eru óvenju vel undir það búin að taka á sig áföll. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Talsmenn verkalýðsins eru á allt öðru máli og boða aukna hörku ef ekki tekst að koma böndum á ástandið.

Katrín Jakobsdóttir segir að ráðstöfunartekjur heimilanna hafi aukist, meðal annars vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Vanskil hafi verið í lágmarki. Vandi hafi skapast vegna verðbólgu og vaxtahækkana en aðstæður fólks til að bregðast við séu óvenju góðar. „En þetta er mjög snúið ástand,“ segir Katrín, sem segir stóra verkefnið að koma skikki á húsnæðismálin.

Katrín Jakobsdóttir segir ástandið snúið.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Vaxtahækkun Seðlabankans í gær vekur hörð viðbrögð verkalýðsforystunnar. „Þetta er endurtekið efni, þetta vaxtahækkunarferli, maður er orðinn langþreyttur á þessu ástandi, hvort sem ræðir um verðbólgu eða vexti,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.

Drífa segir að ástandið bitni á heimilum um allan heim. Þolinmæði vinnandi fólks sé á þrotum í vestrænum heimi. Átök séu víða í uppsiglingu eða orðin að veruleika.

„Vinnandi fólk þolir ekki svona gusur. Það er algjört óöryggi sem hlýst af því þegar afkoma fólks er ekki tryggð.“ Drífa segir veruleika íslenskra heimila stökkbreyttan vegna vaxtahækkana. Margir hafi breytt lánasamsetningu sinni og súpi nú seyðið af ástandi sem enginn hafi séð fyrir.

„Við trúðum að komið væri lágvaxtaumhverfi. Fólk tók óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum og nú hækka mánaðarlegar greiðslur ört og dynja miklu harðar á mörgum en þegar flest heimili voru með verðtryggð lán,“ segir Drífa.

Vilhjálmur segir að það stefni í hörð átök á íslenskum vinnumarkaði.

Vilhjálmur Birgisson hjá Verkalýðsfélagi Akraness segir að það stefni í hörð átök á íslenskum vinnumarkaði í haust. Mánaðarleg greiðslubyrði sumra lántakenda sem skuldi 40 milljónir í eign sinni hafi á einu augabragði í gærmorgun hækkað um 33 þúsund á mánuði vegna ákvörðunar Seðlabankans.

„Það er bláköld staðreynd að á undanförnum tólf mánuðum hefur greiðslubyrði venjulegs launafólks aukist um marga tugi þúsunda,“ segir Vilhjálmur og nefnir húsaleigu, matvöru, fasteignagjöld, vexti og fleira. „Það er ljóst að svona getur þetta ekki haldið áfram.“

Vilhjálmur segir að þanþol heimilanna sé við það að bresta.

„Ef menn taka ekki höndum saman um að auka ráðstöfunartekjur með fleiri þáttum en bara með beinum launahækkunum, þá mun fara illa. Launafólk og heimilin geta ekki tekið endalaust við,“ segir Vilhjálmur sem spáir dimmu hausti að óbreyttu.