VR sakar seðlabankastjóra um ofbeldi gegn almenningi í landinu. Seðlabankastjóri segir launahækkanir gagnslausar í óðaverðbólgu. Formaður Einingar-Iðju vill ekki slíta kjaraviðræðum.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir vegna boðaðra viðræðuslita stéttarfélaga í kjarasamningum að Seðlabankinn sé ekki aðili að kjarasamningum.

„Seðlabankinn samkvæmt lögum verður að fylgja verðbólgumarkmiðum og það er Peningastefnunefnd sem tekur sjálfstæðar ákvarðanir,“ sagði Ásgeir í samtali við Fréttablaðið í gærkvöld. „Seðlabankinn getur aldrei með beinum hætti orðið aðili að kjarasamningum,“ bætir hann við.

Ásgeir segir að tal um að slíta kjaraviðræðum muni engu breyta um vaxtaákvarðanir Seðlabankans.

„Við þurfum að vernda kaupmátt og vernda verðgildi penignanna. Ef við myndum ekki standa að baki verðgildi peninganna þá fer verðbólgan í hæstu hæðir og kjarasamningar yrðu algjörlega vonlausir,“ segir Ásgeir Jónsson og bætir við að stórfelldar kjarahækkanir megi sín lítils ef þær brynnu upp í óðaverðbólgu.

„Aftur á móti eru kjarasamningar háðir því að við stöndum við okkar hlutverk, sem er að halda verðbólgu niðri.“

Stýrivextir eru eftir gærdaginn komnir í sex prósent og hafa ekki verið hærri í tólf ár. Hækkun gærdagsins um 0,25 prósent hefur verið fordæmd. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að í Þýskalandi séu stýrivextir aðeins um tvö prósent en verðbólga þó meiri en hér. Seðlabankinn spili sóló.

Spurður út í þau ummæli Ásgeirs að Seðlabankinn sé ekki aðili að kjarasamningum segir Ragnar Þór að hlutverk Seðlabankans sé að verja lífskjör fólksins í landinu. Því hlutverki hafi hann brugðist.

„Seðlabankastjóri hefur síendurtekið beint spjótum sínum að verkalýðshreyfingunni. Hann hefur sagt boltann hjá okkur en nú segir hann að Seðlabankinn sé ekki aðili að samningum. Ásgeir talar í hringi, hann er algjörlega ómarktækur,“ segir Ragnar Þór.

Staðan sem upp er komin er grafalvarleg að sögn formanns VR.

„Nú þarf að rísa upp gegn fjárhagslegu ofbeldi Seðlabankans gegn fólkinu í landinu. Við munum grípa til aðgerða.“

Til marks um ójafnvægið nefnir Ragnar Þór afkomutölur bankanna. Hann segir að hreinar vaxtatekjur þeirra fyrstu níu mánuði þessa árs verði 90 milljarðar króna.

„Það er ljóst fyrir hvern Ásgeir er að vinna. Hann kemur úr bankakerfinu.“

Björn Snæbjörnsson fyrrverandi formaður Starfsgreinasambandsins og formaður Einingar-Iðju sem situr í viðræðunefnd sambandsins er ekki á þeirri skoðun að viðræðuslit í kjarasamningum séu lausnin.

„Við þurfum núna að finna nýjar leiðir til að bæta okkar kröfugerð. Ég met það þannig að mönnum beri skylda til að setjast niður og reyna að ná nýjum kjarasamningi til að okkar fólk öðlist hærri tekjur til að geta greitt hærri reikninga,“ segir Björn.