„Við sem erum í forystu hér innan félagsins erum dálítið undrandi að við skyldum bara frétta þetta í fjölmiðlum,“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, um 3,3 milljarða króna fjárfestingu lífeyrissjóðsins Gildis í Arnarlaxi.

Fram hefur komið að Gildi og sjóður á vegum Stefnis, sjóðastýringarfyrirtækis Arion banka, ásamt norskum fjárfesti, hafi verið hornsteinafjárfestar í hlutafjárútboði Arnarlax sem lauk á miðvikudag. Í tilkynningu frá kauphöllinni í Osló kom fram að umframeftirspurn hefði leitt til þess að útboðið var stækkað úr jafnvirði 6,5 milljarða íslenskra króna í 7,6 milljarða.

Verkalýðsfélag Vestfirðinga á aðild að Gildi. Hátt á áttunda tug félagsmanna verkalýðsfélagsins starfar hjá Arnarlaxi, að sögn Finnboga Sveinbjörnssonar. Alls eru starfsmenn Arnarlax um eitt hundrað.

„Stóra fréttin er að fagfjárfestir skuli viðurkenna þessa starfsgrein og fara að fjárfesta í henni, meira að segja í landsfjórðungi þar sem lífeyrissjóðir hafa almennt ekki verið mikið að fjárfesta í atvinnulífinu. Auðvitað finnst okkur það mjög jákvætt en okkur fannst skrítið, þótt það sé ekki nein skylda, að kanna ekki hjá stéttarfélaginu hvernig samskiptin við fyrirtækið séu, þegar um er að ræða atvinnugrein sem er að stækka svona mikið,“ segir Finnbogi, sem bendir þó á að auðvitað eigi stjórnarmenn í lífeyrissjóðum að vera óháðir.

„En yfirleitt þegar lífeyrissjóðir eru að fara að fjárfesta í fyrirtæki sem er tiltölulega ungt en þó búið að festa sig í sessi og komið á markað, þá hefði maður haldið að þeir myndu kanna einmitt þennan samfélagslega þátt. Mér hefði ekki þótt óeðlilegt að lífeyrissjóðurinn hefði verið í sambandi til að kanna hvort þeir séu ekki með allt sitt á þurru gagnvart verkafólkinu sem er að vinna hjá þeim,“ segir Finnbogi.

Þrátt fyrir þetta tekur Finnbogi fram að ef Gildi hefði spurt Verkalýðsfélag Vestfirðinga um samskiptin við Arnarlax, hefði svarið verið að þau væru góð. „Við gætum í raun ekki sett út á neitt,“ undirstrikar formaðurinn.

Nokkur núningur mun þó áður hafa verið til staðar milli Arnarlax annars vegar og starfsmanna og verkalýðsfélagsins hins vegar. Finnbogi segir að greitt hafi verið úr slíku. „Það er ljóst að fyrirtækið metur það þannig að það sé betra að vera í góðum samskiptum við félagið og trúnaðarmennina. Það var farið í breytingar sem starfsfólkið er mjög ánægt með og þetta er allt önnur staða,“ segir hann.

Aðspurður kveðst Finnbogi ekki endilega tengja breytinguna gagnvart starfsfólkinu áðurnefndu hlutafjárútboði. „Ég held að breytingin sem þeir gerðu hafi aðallega verið til að koma hlutum á hreint innanhúss, að það væri ekki þessi stöðuga barátta og núningur á milli stéttarfélags starfsmanna og fyrirtækisins,“ segir formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga