Lögregla lagði hald á listaverk, skartgrip, reiðufé og dýra bíla við húsleit hjá grunuðum vímuefnasala í Stokkhólmi í Svíþjóð. Meðal þeirra voru verk eftir Pablo Picasso, Andy Warhol og Marc Chagall.
Húsleit var framin á heimili mannsins, sem er frá Helsingborg, í desember og unnu sænska og spænska lögreglan saman að málinu. Verkin fundust á heimili hans en auk þess voru fimm handteknir á Spáni, þar af nokkrir Svíar samkvæmt tilkynningu frá lögreglu.
Málið er að hennar sögn gríðarlega umfangsmikið og eru hinir handteknu grunaðir um smygl á miklu magni vímuefna til Svíþjóðar frá Spáni auk peningaþvættis. Höfuðpaurinn sem tekinn var höndum í Stokkhólmi hefur verið framseldur til Spánar.
Sænska lögreglan segir að fylgst hafi verið með honum í nokkur ár og hann var á skrá yfir eftirlýsta glæpamenn hjá Europol.