Verjendur hinna þriggja ákærðu, sem er sögð eiga aðild að morði Armando Beqirai, hafna því að hægt sé að dæma þau fyrir samverknað þar sem játning Angjelin Sterkaj liggi fyrir og engin þeirra hafi komið með beinum hætti að skotárásinni. Engin ásetningur hafi verið til staðar fyrirfram.

Verjendur furðuðu sig á því að saksóknari hafi sagt hin ákærðu hafa mögulega gerst sek um hlutdeild frekar en samverknað. Ekki sé hægt að fara fram á hlutdeild nema málið sé sérstaklega sótt af þeim sökum.

Málflutningi í Rauðagerðismálinu lauk í dag en þar fluttu sækjendur og verjendur sitt lokamál fyrir dómi. Angjelin Sterkaj, Claudia Sofia Coelho Carvahlo, Murat Selivrada, og Shpetim Qerimi eru ákærð fyrir manndráp og aðild að því manndrápi á Armando Beqirai. Angjelin hefur játað að hafa skotið Armando til bana fyrir utan heimili hans í Rauðagerði en hefur borið fyrir sig sjálfsvörn.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari fer fram á að hin ákærðu verði dæmd sek en hún segir að um samverknað hafi verið að ræða. Farið er fram á 16 til 20 ára fangelsisdóm yfir Angjelin og ekki minna en 5 ár fyrir hin, fer það eftir hvort þau verði dæmd fyrir samverknað eða hlutdeild.

„Ákærðu stóðu öll fjögur saman við svipta Armando Beqirai lífi,“ sagði Kolbrún í morgun og tók fram að þó Angjelin hafi mundað morðvopnið hafi þau öll tekið þátt og skipt með sér verkum. Þáttur hvers og eins var nauðsynlegur til að framkvæmdin myndi ganga upp.

Verjendur hinna ákærðu. Oddgeir Einarsson, Geir Gestsson, Sverrir Halldórsson og Leó Daðason.
Fréttablaðið/Anton Brink

Ákveðið fyrirfram að hún væri sek

Sverrir Halldórsson, verjandi Claudiu, krefst sýknu en til vara vægustu refsingar fyrir aðild hennar að morði Armando Beqirai. Hann segir málflutning saksóknara vera örvæntingarfulla tilraun til að klína einhverju á skjólstæðing sinn. Sverrir segir að miðað við allt sem hefur komið fram hafi Claudia ekki átt frumkvæði að neinu. Allt hafi verið á vegum Angjelin.

Þann 12. febrúar, daginn fyrir morðið, hittust Angjelin, Claudia og Shpetim í Borgarnesi til að ræða deilur milli Angjelin og Armando. Sverrir segir Claudiu hafi einungis farið í tilgangi að skutla Shpetim og fara með fíkniefni til Angjelin.

Claudiu er sögð hafa flutt morðvopnið í tösku frá Borgarnesi til Reykjavíkur en verjandi hennar segir hana hafa ekkert litið í töskuna. Henni er einnig gefið að sök að hafa vaktað bíl Armando fyrir utan Reykjavík Downtown apartments til þess að geta látið Angjelin vita um ferðir hans. Sverrir segir að hún hafi ekki tekið bílavaktinni alvarlega og aðild hennar skipti í raun engu máli að hans mati. Bendir Sverrir á að hún hafi farið í verslun á meðan hún átti að vera að fylgjast með.

„Angjelin vissi að brotaþoli væri rétt ókominn heim og því dreif hann sig. Ákærða lét vita að brotaþoli væri farin af Rauðarárstíg eftir að Angjelin var kominn í Rauðagerði. Aðkoma Claudiu skiptir því engu máli.“

Sömuleiðis hafi hún ekki haft ásetning um að svipta Armando lífi og þegar játning liggi fyrir máli ætti samverknaður ekki að koma til greina. Verjandinn gagnrýndi vinnubrögð lögreglu og segir að hún hafi verið tekin í yfirheyrslu án verjenda og túlks. Þannig hafi lögreglan brotið nokkur ákvæði um meðferð sakamála.

„Mjög hefur hallað á Claudiu undir rannsókn málsins og ákveðið fyrirfram að hún hafi gerst sek um refsiverða háttsemi.“

Claudia í héraðsdómi í dag.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Það er enginn ásetningur til manndráps með að sýna kyrrstæða bifreið.“

Myndi aldrei taka þátt í morði á vini sínum

Geir Gestsson, verjandi Murat, sakar Claudiu um að reyna að hlífa unnusta sínum Angjelin með því að saka Murat um að hafa gefið henni fyrirmæli daginn sem Armando var myrtur.

Murat er gefið að sök hafa sýnt Claudiu tvo bíla í eigu Armando og að hafa gefið henni fyrirmæli um að senda skilaboðin „Hæ sexý“ til Angjelin, sem merki um að Armando væri á leiðinni heim.

Hann dregur frásögn Claudiu í efa og segir hana hafa reynt að draga úr þætti Angjelin að málinu.

„Einu sönnunargögnin um að Murat hafi gefið þessi fyrirmæli eru skýrslu Claudiu á fyrri stigum lögreglurannsóknar og það er þannig að lögregla gerði sérstaka athugasemd við þennan framburð,“ segir Geir og bendir á að lögreglan hafi grunað að fyrirmælin hafi komið frá Angjelin. Segir hann framburð Claudiu hafa verið á reiki og hún hafi viðurkennt sjálf í mars að það hafi í raun veirð Angjelin sem gaf henni fyrirmæli.

„Hún sagðist hafa óttast Angjelin eftir að hún hafði heyrt á morðinu og óttast hefndaraðgerðir. Hún reyndi að minnka þátt Angjelin, sem hún var í ástarsambandi með, með því að benda á Murat.“

Þrátt fyrir þetta telji ákæruvald augljóst að Murat hafi sagt Claudiu að fylgjast með.

Murat.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Varðandi ásetning tekur Geir fram að enginn hafi rætt morð og að skotmaðurinn Angjelin hafi einungis verið með Murat í um fjórar eða fimm mínútur umrætt kvöld. Þar að auki hafi Armando verið vinur Murat og með öllu fjarstæðukennt að hann myndi taka þátt í morði á vini sínum.

„Það er enginn ásetningur til manndráps með að sýna kyrrstæða bifreið.“

Geir gerði athugasemd við greinargerð lögreglunnar líkt og verjendur gerðu allir í síðustu viku um að í rannsóknargögnum sé að finna staðhæfingar og hugleiðingar. Segir hann þetta gróft brot á hlutlægni rannsóknarmála.

„Hver er tilgangur lögreglu við gerð þessarar skýrslu? Í niðurlagi er talað um kenningar lögreglu, þetta er eitthvað sem má ekki samkvæmt Hæstarétti. Þá er kenning lögreglu um hverjir eru sekir, sem má ekki heldur,“ sagði Geir og tók fram að hann taldi erfitt að ímynda sér alvarlegra brot á hlutlægnisskyldu. Þegar refsingin er ævilöng fangelsisvist, eins í þessu máli, væri þetta ófyrirgefanlegt.

„Ef Íslendingur myndi lenda í slíkri stöðu í Albaníu myndum við segja að Albanía væri ekki réttarríki.“

Háttsemi eftir morðið stuðli að framkvæmd brotsins

Leó Daðason, verjandi Shpetim, segir skjólstæðing sinn hafa engan tengsl við hópana sem áttu í ágreiningi í aðdraganda morðsins. Ágreiningur milli Angjelin og Armando hafi byrjað fyrir löngu.

„Shpetim hefur frá upphafi neitað að hafa vitað um tilgang ferðarinnar í Rauðagerði og það er ekkert í gögnum málsins sem sýnir fram á það gagnstæða,“ sagði Leó.

Hann mótmælir því að fundur skjólstæðings síns við Angjelin í Borgarnesi hafi verið einhvers konar undirbúningsfundur fyrir morðið á Armando.Ek

Shpetim var í bílnum með Angjelin á leiðinni heim til Armando við Rauðagerði og ók svo burt með Angjelin eftir morðið. Hann sagði í skýrslutöku í síðustu viku að hann hafi verið fullur þennan dag og hafa lítið munað þegar hann ræddi við lögreglu.

Þegar hann lagði af stað í Rauðagerði með Angjelin það kvöld hélt hann að framhald á sölu og dreifingu fíkniefnana hafi verið í Rauðagerði. Enn fremur hafi Angjelin sagt honum að þeir ætluðu að fara í Costco, eða nálægt Costco.

Hann hafi ekki séð vopnið þegar Angjelin kom aftur í bílinn eftir að hafa skotið Armando þar sem Angjelin var í stórri úlpu og hafi sennilega verið með byssuna innan hennar. Verjandi Shpetim benti á að í gögnum málsins kom fram að engar púðuragnir fundust í bílnum sem styðji þessa frásögn.

Shpetim.
Fréttablaðið/Anton Brink

Angjelin og Shpetim keyrðu saman norður í Varmahlíð þessa nótt þar sem Claudia hitti þá og skiptist á bílum við Shpetim sem keyrði aftur til Reykjavíkur. Að sögn verjandans frétti Shpetim ekki af morðinu fyrr en daginn eftir og þegar Angjelin og Claudia komu heim til hans á mánudeginum hafði Angjelin orð af því að fólk gæti haldið að hann hefði myrt Armando. Shpetim hafi orðið reiður og vísað honum út.

Leó rifjaði upp lýsingar Angjelin í skýrslutöku sinni um það sem gerðist í kjölfar árásarinnar.

„Angjelin kom aftur í bílinn og kvaðst hafa sagt að hann muni ekki drepa neinn lengur. Shpetim hafi þá sagt að hann væri búinn að eyðileggja líf þeirra,“ lýsti Leó. Shpetim sagði í skýrslutöku sinni í síðustu viku að hann hafi ekki kannast við þessi orð en Leó segir að ef hann hafði látið þessi orð falla þá væri ljóst að hann vissi ekki af morðinu fyrirfram.

Tekur hann fram að þó að Shpetim hafi ekið með Angjelin út úr bænum eftir morðið þá gæti háttsemi eftir verknaðarstund ekki stuðlað að framkvæmd brotsins. Því væri ekki hægt að sakfella Shpetim fyrir þann hluta ákærunnar.