Verjandi meðlima hljómsveitarinnar Sigur Rósar krafðist þess í morgun að máli á hendur þeim verði vísað frá dómi. Þeir eru ákærðir fyrir meiriháttar skattalagabrot og er gefið að sök að hafa komist hjá því að greiða rúmlega 150 milljónir króna í skatt.

Í frávísunarkröfu sinni vísaði verjandinn til fjölda dóma sem fallið hafa bæði hér á landi og hjá Mannréttindadómstól Evrópu í samskonar málum og tók sem dæmi mál Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar gegn íslenska ríkinu, Ragnars Þórissonar gegn íslenska ríkinu og Bjarna Ármannssonar gegn ríkinu. Öll málin hafi fallið ríkinu í óhag.

Í málunum hafi öll málsmeðferð verið tvöföld en í máli Sigur Rósar megi segja að hún hafi verið þreföld. Fyrst með rannsókn skattrannsóknarstjóra sem vísaði málunum svo á tvo staði, annars vegar til ríkisskattstjóra og hins vegar til héraðssaksóknara sem gaf að lokum út ákæru í málinu.

„Það er illskiljanlegt að sama brot sé rannsakað sjálfstætt hjá þremur embættum áður en það fer til dómstóla. Þessu sé ekki svo farið hjá nágrannalöndum okkar,“ sagði Bjarnfreður Ólafsson, verjandi þeirra, fyrir dómi í morgun. Þá lét hann þess getið að rannsókn málsins hefði staðið allt frá árinu 2015 og varað í 712 daga þar til ákæra var gefin út, þrátt fyrir að ákærðu hefðu verið samstarfsfúsir og afhent öll umbeðin gögn.

Bjarnfreður gagnrýndi stjórnvöld dómstóla fyrir að hafa ekki tekið þá meðferð skattrannsóknarmála sem hér eru viðhöfð til endurskoðunar, þrátt fyrir fulla meðvitund um alvarlega ágalla hennar. Vísaði hann til skýrslu nefndar sem þáverandi innanríkisráðherra skipaði þar sem mikilvægi breytinga á meðferð mála er lýst. Undir skýrsluna hafi meðal annarra ritað Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.

Dómari mun taka sér hlé til að taka afstöðu til frávísunarkröfunnar.