Yfirvöld í Brúnei hafa ritað Evrópuþinginu bréf þar sem ákvörðunin um að heimila dauðarefsingar með grýtingu vegna samkynhneigðar er varin en í bréfinu segir að sjaldgæft verði að slíkum dómum verði framfylgt „þar sem það muni þurfa tvo mikilsvirta menn sem vitni að glæpnum,“ að því er fram kemur á vef Guardian.
Um er að ræða fjögurra blaðsíðna bréf til þingmanna þingsins þar sem kallað er eftir því að Evrópusambandið sýni umburðarlyndi og virði vilja landsins til þess að vernda hefðbundin gildi sín og „ætterni fjölskyldna.“
Nýja refsilöggjöfin hefur hlotið heimsathygli en þar er einnig kveðið á um að þjófar verði aflimaðir og að fólk sem klæðist fötum sem flokkaðir séu undir fötum hins kynsins verði húðstrýktir. Löggjöfin var samþykkt 3. apríl síðastliðin og telja yfirvöld að alþjóðleg gagnrýni á löggjöfina feli í sér misskilning.
„Glæpavæðing hórlífis og samkynhneigðar er til að vernda heilagleikar kjarnafjölskyldunnar og hjónabandsins fyrir einstaka múslíma, sérstaklega konur,“ segir meðal annars í bréfinu. „Refsingar líkt og að grýta til dauða eða aflimanir, sem gripið er til í tilviki þjófnaðar, hjúskaparbrota og samkynhneigðar fela jafnframt í sér að það þarf mjög sterkar sannanir,“ segir jafnframt í bréfinu og er vísað til þess að tvo til fjóra heiðvirða menn þurfi sem vitni.
Þá segir að húðstrýkingar verði beitt í hófi. „Sakborningurinn verður að vera í fötum og hýðingin þarf að vera gerð með meðalafli án þess að hönd sé lyft yfir höfuð og má ekki verða til þess að sár myndist á húðinni eða að bein brotni og má ekki beita gegn andliti, höfði, maga, bringu eða kynfærum.“