Jarðskjálfti að stærð 3,8 fannst vel víða á höfuðborgarsvæðinu í gær. Samkvæmt skráningu Veðurstofunnar átti hann upptök sín um 2,6 kílómetra suðaustur af Eiturhóli á Mosfellsheiði.

Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að skjálftinn sé hluti af hrinu sem hófst í fyrrinótt og þegar Fréttablaðið náði í hann höfðu mælst um 300 skjálftar, flestir litlir og á miklu dýpi. Það er því ekki að hefjast eldgos í Eiturhól.

„Það er búin að vera virkni við Eiturhól síðustu tvær vikurnar. Það eru búnir að vera nokkur hundruð skjálftar þar og ef maður skoðar til baka alla leið til janúar er töluverð virkni þarna. Það er samt pínu óalgengt að það séu svona margir í einu,“ segir hann.

Hann bendir á að ekkert bendi til þess að skjálftavirknin tengist eldsumbrotunum í Geldingadölum.

„Við fylgjumst vel með hvernig þetta þróast en það er alltaf óþægilegt að fá skjálfta upp á 3,8 sem fannst víða. Við sjáum til með framhaldið þó engin merki séu um gosóróa.“

Upptök stóra skjálftans voru aðeins austan við Bláfjallasvæðið en jarðskjálftahrinur eru ekki óalg­engar á þessu svæði. Engin hætta sé í byggð en eftir rólega tíð í kjölfar eldgossins sé þetta áminning um að þarna sé virkt jarðskjálftasvæði og að það þurfi að gæta að vörnum.

Bjarki segir að nú sé gaman að vera náttúruvársérfræðingur enda nóg að gerast í vinnunni. Jafnvel sé of mikið að gera. „Við erum tveir á vaktinni á daginn og tveir veðurfræðingar og á næturnar er einn af hvorum,“ segir Bjarki sem hefur haft í nógu að snúast undanfarið.

„Þegar jarðskjálftahrinan varð, áður en gosið byrjaði í Geldingadölum, var svolítill hasar en það er ekki alltaf sem maður fær eldgos til að horfa á. Ég fæ að fara af og til heim.“