Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, lætur af störfum og fer á eftirlaun eftir tuttugu ára starf hjá samtökunum. Stígamót greindu frá þessu á Facebook síðu sinni og þakka Guðrúnu við brautryðjandi starf hennar og baráttu gegn kynferðisofbeldi á Íslandi.

„Hún hefur plægt akurinn sem auðveldar okkur hinum sem á eftir komum baráttuna. Hún hefur verið vakin og sofin yfir velferð brotaþola kynferðisofbeldis og ötul talskona starfsins á Stígamótum, bæði hérlendis og erlendis. Starf Guðrúnar á Stígamótum hefur verið ómetanlegt þar sem hún hefur lyft grettistaki í umbyltingu á umræðu og vitund um kynferðisofbeldi,“ segir í tilkynningu frá Stígamótum.

Guðrún segir þetta tímamót í lífi sínu og að ný ævintýri séu framundan.

„Það voru forréttindi að taka þátt í baráttunni gegn kynferðisofbeldi í yfir þrjátíu ár. Síðustu rúm tuttugu árin á Stígamótunum mínum. Ákaflega skemmtilegt, erfitt og ögrandi.“ segir Guðrún og þakkar samstarfsfólki sínu samstarfið og óskar þeim alls góðs.

„Þess sama óska ég ótal samstarfsaðilum og systrum í baráttunni. Gangi öllum þeim brotaþolum sem ég hef unnið með sem allra allra best, þið kennduð mér mest af öllum,“ segir Guðrún. Hún bætir við að þrátt fyrir að fara á eftirlaun þá sé hún að sjálfsögðu ekki að segja skilið við kvennabaráttuna.

„Verið óhrædd og róttæk og látið ekki þagga ykkur. Ég tilkynni jafnframt að ég hef ekki sagt skilið við feminismann. Ég mun áfram fuðra yfir óréttlæti og kúgun og vona innilega að ég eigi eftir að halda áfram að taka þátt í að gera heiminn sanngjarnari og friðsamari.“