„Ég reikna með að við höldum áfram að raðgreina sýni, en þessi niðurstaða Persónuverndar lætur mann efast um að það sé skynsamlegt,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, spurður út í yfirlýsingu fyrirtækisins í gær.

Íslensk erfðagreining hafnaði í gær að hafa brotið reglur, en Persónuvernd hafði áður sakað fyrirtækið um að hafa farið á svig við persónuverndarlög við öflun samþykkis Covid-19-sjúklinga fyrir notkun blóðsýna í þágu vísindarannsóknar.

Fyrir vikið sendi Íslensk erfðagreining frá sér tilkynningu þar sem fram kom að fyrirtækið íhugaði að hætta að veita heilbrigðisþjónustunni aðstoð í baráttunni við Covid-19.

„Persónuvernd telur að við höfum verið að fremja vísindarannsókn frekar heldur en að aðstoða heilbrigðiskerfið, þegar við hófum skimun eftir mótefnum. Það er skoðun Persónuverndar sem er önnur skoðun en skoðunin mín, Landlæknis, sóttvarnalæknis og yfirlæknis á smitsjúkdómadeild Landspítalans. Það segir í lögum um vísindarannsóknir á fólki að ef að það kemur upp álitamál sé það vísindasiðferðisnefndar að úrskurða, en ekki Persónuverndar,“ segir Kári og heldur áfram:

„Við hættum öðru starfi og unnum daga og nætur við að aðstoða sóttvarnayfirvöld. Núna er verið að segja að við höfum framið glæp, sem er með ólíkindum. Það má velta fyrir sér hvaða hagsmuni sé verið að verja með þessu, því við vorum að sinna heilbrigðisþjónustu.“

Kári segir að þetta haldist í hendur þegar um nýjan sjúkdóm sé að ræða.

„Þegar það kemur nýr sjúkdómur fram, þá er öll vinna sem þú vinnur til að læra meira um sjúkdóminn. Það er því enginn munur á vísindarannsókn og heilbrigðisþjónustu á sjúkdómi sem þú hefur aldrei séð áður.“