Sigurður Eggertsson vélvirkjameistari fer í sjúkraþjálfun tvisvar til þrisvar í viku og hefur gert það í þrettán ár. Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar starfa ekki lengur eftir samningi við Sjúkratryggingar Íslands og borga því sjúklingar fullt gjald. Sigurður segir stöðu mála mikið áhyggjuefni.

„Þetta bitnar á almenningi; okkur sem þurfum á sjúkraþjálfun að halda.“

Í morgun hafi hann orðið vitni að því að hjón hafi greitt 9.000 krónur fyrir einn tíma í sjúkraþjálfun. Áður fyrr var þak á greiðslum og hefðu hjónin greitt umtalsvert minna þá.

„Ég væri ekki á lífi ef ég hefði ekki farið til sjúkraþjálfara í öll þessi ár,“ segir Sigurður í samtali við Fréttablaðið. Sigurður er ættaður frá Hellissandi. Hann er vélvirkjameistari og fyrrverandi sveitarstjóri Grundarfjarðar.

Höfum ekki efni á að lána ríkinu

Sigurður fór með reikning í morgun í Sjúkratryggingar Íslands og fékk hann þau svör að hann gæti ekki fengið staðgreidda niðurgreiðslu, sem sjúkratryggðir eiga rétt á, og gæti ferlið tekið sex mánuði. Starfsmaður Sjúkratrygginga hafi kallað hann dóna fyrir að fara fram á staðgreiðslu. Hann segir ríkið sýna dónaskap í garð almennra borgara.

„Við höfum ekki efni á því að lána ríkinu í ótiltekinn tíma. Við erum beðin um að borga hlut ríkisins á sama tíma og ríkið lækkar veiðileyfisgjöld. Því getum við sem þurfum á þessari þjónustu að halda ekki staðið undir,“ segir Sigurður og bætir við: „Enginn samningur hefur verið gerður við mig um lánaþjónustu við ríkið.“

Árás á sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara

Læknar hafa verið án samnings lengur en sjúkraþjálfarar en Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifaði í fyrra undir reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar til lækna með rafrænum hætti. Aðspurð hvort slík reglugerð verði sett í tengslum við sjúkraþjálfun gaf Svandís engin svör.

„Þegar ég fór fram á staðgreiðslu hjá Sjúkratryggingum var hótað að siga öryggisverði á mig.“

„Það eru einhver illindi hjá ráðherranum út í sjúkraþjálfara, fyrst og fremst vegna þess að þeir eru sjálfstætt starfandi. Ráðherra vill draga þetta allt inn. Á sama tíma er allt upp í loft hjá Reykjalundi og það er nákvæmlega sama mál og árásin á sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara. Þetta bitnar á almenningi; okkur sem þurfum á sjúkraþjálfun að halda,“ segir Sigurður.

Sigurður er hjartasjúklingur og fór í opna skurðaðgerð fyrir nokkrum árum. Hann hefur ekki þurft að nota lyf en nýtur þjónustu sérhæfðra sjúkraþjálfara. Sigurður segist hafa miklar áhyggjur af stöðu mála.

„Þetta er ranglæti“

„Við sjúklingarnir skiljum ekki afstöðu ráðherra og Sjúkratrygginga. Hér er verið að eyðileggja starfsemi sjúkraþjálfara með skipulögðum hætti. Svo er gríðarlegt álag á yfirfullum heilsugæslustöðvum og á Landspítalanum. Þar er ekkert starfslið til,“ segir Sigurður. Hann bendir á að ótalmargir Íslendingar velji það að flytja til Kanaríeyja þar sem hægt sé að komast í sjúkraþjálfun að kostnaðarlausu. Hann veltir fyrir sér hvort málin þróist í þá átt að almennir borgarar neyðist til að flytja úr landi til að fá þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda.

„Við erum að lána ríkinu á móti niðurfellingu á veiðigjöldum. Þetta er ranglæti. Þegar ég fór fram á staðgreiðslu hjá Sjúkratryggingum var hótað að siga öryggisverði á mig,“ segir Sigurður.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa starfsmenn Sjúkratrygginga sagt sjúklingum, sem koma þangað með reikninga til að fá endurgreiðslu, að sjúkraþjálfarar neiti að senda rafræna reikninga. Sjúkraþjálfar telja sig starfa án samnings og geta því ekki sent rafræna reikninga samkvæmt þeirri túlkun nema ráðherra skrifi undir nýja reglugerð þar um.