„Ég tel okkur eiga að ræða þetta útfrá börnunum og hagsmunum þeirra,“ segir Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara og fyrrverandi sundkennari sem tekur undir hvatningu umboðsmanns barna um að skoða fyrirkomulag skólasunds.

Sundkennslan nær allt til loka náms í efstu bekkjunum grunnskóla og nefnt er að kröfurnar í aðalnámskrá grunnskólanna séu umfram þörf og líðan ungmenna ekki síst oft slæm á sundstaðnum.

Þorgerður segir í viðtali á Fréttavaktinni, að gagnrýni ungmenna á sundkennslu sé mikilvæg og öll kennsla eigi að byggja á sáttmála þeirra sem kenna og þeirra sem kennslan snýr að í íslensku samfélagi.

„Ég fagna alltaf umræðu, þegar verið er að tala um aðalnámskrá grunnskóla því hún er svona samansafn af því samkomulagi sem við höfum gert um það hvað í sjálfu sér er eðlilegt og gott að íslensk ungmenni læri eða hafi alla vega tök á að hafa tækifæri til að kynnast,“ segir Þorgerður.

Ungmenni hafa tjáð sig um að mörg finni sig berskjölduð fyrir líkamsímynd sinni og einelti og áreiti á sundstöðum viðgangist.

Viðvera á sundstað sumum mjög erfið

„Það er vert að hlusta í alvöru á það,“ segir Þorgerður. „Því þarna er verið að berskjalda hvern einn og einasta einstakling þegar hann fer í sund því hann þarf að fara úr fötunum sínum og vera ber fyrir framan skóla- og bekkjarfélaga og það er bara mjög mörgum börnum erfitt og í sundi getur líka komið upp bara hræðsla.“

Þorgerður segir breytt viðhorf til nektar skipta máli. „Við höfum kannski ekki rætt það nógu vel hvernig til dæmis menningin um nekt hefur verið að breytast á Íslandi og hefur tekið mjög mikið mið af til dæmis bandarískum bíómyndum þar sem nekt er litin öðrum augum en það sem lá til grundvallar áður í evrópsku samfélagi,“ og meinar þá að á meginlandinu hafi verið frjálslegra viðhorf til nektar en í Bandaríkjunum.

„Ég held að ungmennin séu að koma á framfæri sannarlega mikilvægum punkt, það er hvernig í sjálfu sér þau eiga að fá tækifæri til að ákveða hvort þau bera sig fyrir framan fólk og hvar og hvernig.“

Mynd/Hringbraut

Nefnt er að börn séu í margra ára sundþjálfun með margra daga millibili. „Til að ná tökum á sundi þá þarf þjálfun og æfingu og eitt af því sem hefur komið alveg skýrt fram er að til þess að ná þessari leikni þá þarf aukinnn tíma í sundi en ekki færri tíma,“ segir Þorgerður en það sé ekki útilokað að fara í eldra fyrirkomulag þar sem sérstök sundnámskeið voru haldin en ekki skólasund í mörg ár.

Sundkröfurnar

Börnin eiga að lokum grunnskóla að kunna fjórar sundtegundir, kafsund og geta troðið marvaða. Þorgerður telur málið aðallega snúast um upplifun unglinganna í sundkennslu en síður sundkröfurnar.