Mál Flugfreyjufélags Íslands(FFÍ) gegn Icelandair var þingfest í Félagsdómi síðdegis í dag. Í stefnu félagsins er þess krafist að ákvörðun flugfélagsins að taka fyrir hlutastörf flugliða verði felld úr gildi. Lögmaður félagsins kveðst vongóður með framhaldið en segir nauðsynlegt að málið verði afgreitt sem fyrst.

Krafan þríþætt 

Mikið fjaðrafok varð eftir að flugfélagið gaf 118 flugfreyjum félagsins þá afarkosti í september, að sinna fullu starfi ellegar segja upp störfum. FFÍ fordæmdi ákvörðunina stuttu síðar og kvaðst telja að verið væri að brjóta gegn 22-0 grein í kjarasamningi. 

Guðbjarni Eggertsson, lögmaður Flugfreyjufélags Íslands, segir ágreininn í raun í grunninn snúast um túlkun á 22-0 grein kjarasamningsins, en forstjóri og aðrir forsvarsmenn Icelandair telja breytinguna standast samninga. Í stefnunni er þess krafist að réttur flugfreyjanna til hlutastarfa verði viðurkenndur og þessi ákvörðun Icelandair ógild. Þá verður þess krafist að réttur flugfreyja til hlutastarfa verði viðurkenndur.

Enn á eftir að koma í ljós hve langan frest Icelandair fær til þess að skila greinargerð um efnið. Málið verður flutt í framhaldi af því.

Brýnt að málið leysist sem fyrst

„Þetta á að vera svona hálfgert flýtimeðferðarmál og við þurfum að fá úrskurð sem fyrst. Viðræður um nýja kjarasamninga eru bara á hold á meðan þetta leysist,“ segir Guðbjarni. 

Fjöldi kjarasamninga losna á næsta ári og er samningur FFÍ við Icelandair meðal þeirra sem losna um áramótin. Segir hann því að málið sé ákveðin fyrirstaða í kjaraviðræðum.

„Já ég myndi halda að það ætti allt að vera að fara í gang í þessum töluðu orðum, þannig það er ákveðin pressa að fá niðurstöðu sem fyrst.“

Verið að reyna á réttinn til hlutastarfa

Aðspurður kveðst Guðbjarni ekki vita til annarra viðlíka mála hér á landi. „Það sem er sérstakt við þennan kjarasamning er að er sérstaklega samið um hlutastörf og réttinn til hlutastarfa þannig það er svolítið verið að láta reyna á það hversu ríkur sá réttur er,“ segir hann.

Þá segir Guðbjarni að ákvæði um hlutastörf hafi verið í kjarasamningum flugfreyja frá árinu 1992 og að rík hefð hafi lengi verið fyrir slíkum störfum hjá félaginu, sem óskaði til að mynda, að sögn Guðbjarna, eftir því að starfsmenn sinntu slíku árið 2008.  „Þannig að þeir einstaklingar sem fóru í það þá eru náttúrulega búin að móta líf sitt eftir því.“ Þá segir hann starfið vera ólíkt öllum öðrum störfum og því hafi þessi hefð fyrir hlutastörfum myndast.

Segir SA í mótsögn við eigin áherslur

„Það sem er líka svolítið sérstakt í þessu er að Samtök atvinnulífsins koma fram fyrir hönd Icelandair í þessu máli og þann 1. október sendu Samtök atvinnulífsins frá sér samningsmarkmið fyrir komandi kjarasamninga þar sem meðal annars er verið að vísa í meira svigrúm og fjölskylduvænna starfsumhverfi en á sama tíma er stærsti aðilinn í samtökunum að takmarka og þrengja á þeim rétt,“ sem Guðbjarni. 

Eru þið vongóð með framhaldið?

„Já annars væri maður ekki að gera þetta. Við höfum fulla trúa á þessu.“