Margrét Sigríður Guðmundsdóttir, 59 ára með MS-sjúkdóminn, fékk nýlega þær fréttir að hjúkrunarheimilið sem hún hefur búið á í um tvö ár hafi sagt upp samningi hennar við Sjúkratryggingar Íslands. Það þýðir að hún þarf að vera flutt út af heimili sínu fyrir 1. desember næstkomandi.

Margréti var tjáð að þjónusta hjúkrunarheimilisins og hennar færu ekki saman. „Þetta hefur alltaf verið vitað,“ segir hún og er sátt við ákvörðun forstjóra hjúkrunarheimilisins. Búseta á hjúkrunarheimili sé nú fullreynd.

Ung á hjúkrunarheimili

Margrét sagði sögu sína í viðtali við helgarblað Fréttablaðsins fyrir tæplega ári en þá hafði hún búið á hjúkrunarheimili gegn sínum vilja í ár vegna úrræðaleysis sveitarfélaga og ríkis.

„Ég hefði kosið að vera heima hjá mér eða í úrræði úti í bæ, ekki á svona stofnun,“ sagði Margrét meðal annars í viðtalinu en hún óskaði engum ungum einstaklingi að búa á hjúkrunarheimili.

Fréttablaðið ræddi við fleiri viðmælendur um málefni ungs fatlaðs fólks á hjúkrunarheimilum sem allir voru sammála um að ekki væri vænlegt að blanda þessum hópum saman eins og ríki og sveitarfélög gera.

Sjálfstæðið farið

María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, sagði í samtali við Fréttablaðið fyrir rúmu ári að stjórnendur hjúkrunarheimila hefðu margoft rætt þessi mál við heilbrigðisráðuneytið og að alvarlegar athugasemdir hefðu verið gerðar.

Nú tæplega ári síðar hafa engar breytingar þó verið gerðar og enn búa um 150 fatlaðir einstaklingar undir 67 ára á hjúkrunarheimilum víðs vegar um landið. Ríki og sveitarfélög hafa bent hvert á annað þegar kemur að þjónustu þessa hóps.

Margrét segir dvölina á hjúkrunarheimili hafa verið erfiða enda henti þjónustan ekki fólki í hennar sporum. „Maður missir sjálfstæði og reisn sína. Maður missir að vera manneskja. Það er nákvæmlega allt tekið af manni í orðsins fyllstu merkingu.“

Fékk smá von

Margrét stendur nú frammi fyrir því að verða heimilislaus þann 1. desember ef ekki tekst að finna annað heimili fyrir hana. Hún fundaði með starfsfólki Kópavogsbæjar á mánudag en það er á þeirra ábyrgð að finna úrræði sem hentar.

Aðspurð segir Margrét fundinn hafa gengið vel en hún var með vel valinn hóp með sér á fundinum sem öll tóku til máls. Hún hafi fengið betra viðmót nú en nokkru sinni fyrr sem gefi henni örlitla von þó hún viti lítið um framhaldið.

„Eftir fundinn fór ég hænuskref áfram í bjartsýni, ef við getum orðað það þannig,“ segir Margrét aðspurð hvort hún sé bjartsýn á að málið leysist.

„Þeir verða bara að leysa þetta, það er bara þannig. Það var eiginlega niðurstaða fundarins að þau verði að leysa þetta. Hratt og örugglega,“ segir Margrét.