Ríkis­stjórnin fundaði síðast­liðinn föstu­dag um endur­nýjun búnaðar hjá Land­helgis­gæslunni vegna gróður­elda en í svari dóms­mála­ráðu­neytisins við fyrir­spurn Frétta­blaðsins var endur­nýjun á vatns­kjólu meðal annars til um­ræðu, þar sem skjólan sem Land­helgis­gæslan fékk frá Bruna­mála­stofnun árið 2007 eyði­lagðist við slökkvi­störf fyrr í mánuðinum.

„Í ríkis­stjórninni var rætt um þá hættu sem gróður­eldar skapa og nauð­syn­legt sé að tryggja að Land­helgis­gæslan sé á­vallt við­búin að bregðast við þegar gróður­eldar geisa,“ segir í svari ráðu­neytisins en samið hefur verið um kaup á nýrri skjólu sem kemur til landsins á morgun sem leysir vandann til bráðabirgða.

Búnaður sem liggur almennt ekki á lausu

Að sögn Ás­geirs Er­lends­sonar, upp­lýsinga­full­trúa Land­helgis­gæslunnar, skemmdist fyrri skjólan við slökkvi­störf í Heið­mörk á dögunum. „Það voru farnar sau­tján ferðir, alveg þar til búnaðurinn bilaði og við nánari skoðun kom í ljós að það reyndist ó­mögu­legt að gera við skjóluna,“ segir Ás­geir í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Þetta er búnaður sem að liggur al­mennt ekki á lausu og þegar sú staða kom upp að slökkviskjóla sem við vorum með eyði­lagðist á dögunum þá hófumst við handa við að kanna hvað væri hrein­lega í stöðunni,“ segir Ás­geir en slökkviskjóla í Kanada reyndist þá vera laus til kaups og var á­kveðið að fjár­festa í henni.

Undirbúa kaup á þremur nýjum skjólum

Um er að ræða sam­bæri­lega skjólu og sú sem Land­helgis­gæslan var áður með, þó af eldri kyn­slóð, en í fram­tíðinni þarf nýrri gerð. Verið er að undir­búa kaup á þremur skjólum af nýrri gerð en ó­ljóst er hversu langan tíma það muni taka. „Af því að þetta er ekki búnaður sem er á lausu þá á­kváðum við að stökkva á þessa skjóla enda var mikil­vægt að fá slökkviskjólu hratt og örugg­lega til landsins.“

„Það liggur í augum uppi að það er ekki á­kjósan­leg staða að hafa enga slökkviskjólu til taks, þannig það verður mikið fagnaðar­efni og mikil gleði­tíðindi þegar skjólan kemur á morgun, og það er virki­lega gott að hafa náð skjólu til landsins með svona skömmum fyrir­vara,“ segir Ás­geir. Kostnaðurinn við kaup á skjólunni nema um fimm milljónum króna.

Hættu­stig al­manna­varna er enn í gildi vegna hættu á gróður­eldum á Suður- og Vestur­landi en miklir gróður­eldar hafa geisað undan­farið vegna ó­venju mikillar þurrka­tíðar. Þetta er í fyrsta sinn sem hættu­stigi hefur verið lýst yfir vegna gróður­elda en frá því um 9. apríl hefur slökkvi­lið um allt land sinnt 46 út­köllum um gróður­elda.