Katrín Valgerður Gustavsdóttir og Embla Waage sitja í agnarsmárri skólastofu í aðalbyggingu skólans sem reist er 1846. Þar er heitt á sumrin og ískalt á veturna, og loftræsting léleg. Það truflar þó ekki vinkonurnar sem segjast yfir sig hrifnar af húsnæði skólans og sögu. Á ýmsu hefur þó gengið síðustu misseri og skólastofurnar hafa staðið auðar bróðurpartinn af faraldrinum.

Kennarinn í sóttkví fyrsta skóladaginn

„Við mættum fyrsta daginn eftir áramót og vorum búin að sitja í stofunni í korter. Þá kom konrektorinn inn og hótaði að grýta okkur ef við værum ekki með grímur,“ segir Katrín Valgerður og hlær, og það er ljóst að enginn var í hættu. „En við spurðum næst hvar kennarinn okkar væri og konrektorinn vissi það ekki. Hann fór og kom aftur og lét okkur vita að kennarinn væri kominn í sóttkví.“

Frá tolleringu nemenda í Menntaskólanum í Reykjavík árið 2019.
Fréttablaðið/Valli

Katrín Valgerður er á fornmálabraut. „Mér finnst það ógeðslega áhugavert,“ segir hún. „Mér finnst latínan geggjuð. Þetta er eini staðurinn á landinu sem kennir þetta, ásamt grísku og fornfræði. Tungumál eru svo góður grunnur,“ segir hún. Katrín Valgerður segist hafa valið MR vegna hefðanna og ákveðið sig eftir að hafa séð kynningu á vegum skólans. „Það eru þessar lúðalegu gömlu hefðir. Hér get ég verið lúði með öllum hinum lúðunum,“ segir hún og hlær.

Fólk er bara sofandi og enginn er með kveikt á myndavélinni. Maður er með kveikt á tímanum eins og maður sé með podcast í bakgrunni

Katrín Valgerður segist að mörgu leyti hafa misst af upplifuninni af því að vera nemandi við skólann. Þá missti fornmálabrautin af Rómarferð sem farin er árlega, og hún bætir því við að margir fari á fornmálabrautina til að komast í þá mögnuðu ferð.

„Við fengum að tollera, það var svolítið gaman,“ segir Embla. „En árgangurinn á eftir okkur var aldrei tolleraður.“

Embla er á nýmálabraut og samhliða náminu stundar hún langhlaup og sinnir meðritstjórn Framhaldsskólablaðsins. Hún segist vera upptekin í félagsstarfi og ungmennaráðum af ýmsum toga. Hún stefnir á háskólanám erlendis eftir útskrift úr MR. „Ég ætla í sálfræði eftir þetta. Ég fæ félagsfræðina, en samt tungumálagrunninn til að fara út í nám. Mér finnst það henta ágætlega.“

Bitnar á gæðum námsins

Það er samhljóma mat Emblu og Katrínar Valgerðar að faraldurinn hafi bitnað mikið á gæðum kennslunnar. „Kennarinn okkar minntist á það áðan að fjarnámið væri ekki að skila miklu námslega séð,“ segir Katrín Valgerður.

Embla tekur undir orð hennar. „Fólk er bara sofandi og enginn er með kveikt á myndavélinni. Maður er með kveikt á tímanum eins og maður sé með podcast í bakgrunni. Það er svo erfitt að halda athygli þegar enginn er að fylgjast með manni,“ segir hún. Embla segist líka finna til með kennurunum sínum sem hafi verið að tala við vegg í hálft ár. „Svo spyrja þeir spurninga og það er þögn í þrjár mínútur, enginn svarar.“

Embla og Katrín Valgerður eru sammála um að faraldur kórónuveiru hafi bitnað mikið á náminu og gæðum kennslunnar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Katrín Valgerður segir að upplifunin sé allt önnur í staðnámi. „Þá eru umræður í tímum sem er alveg geggjað. Umræðurnar eru svo mikilvægar til að skilja efnið almennilega.“

Embla bætir við að það sé vandræðalegt að spyrja spurninga í tímum í fjarnáminu. „Það er svo vandræðalegt að kveikja á míkrófóninum og slökkva svo aftur á honum.“ Hún segist því frekar kjósa að senda kennaranum tölvupóst frekar en að spyrja spurninga í fjarkennslu.

„Flestir tímar í fjarnáminu eru fyrirlestrar, sem svæfir mann,“ segir Katrín Valgerður. Hún tekur þó fram að það sé ekki við kennarana að sakast heldur uppsetninguna á kennslunni.

Aðalbygging Menntaskólans í Reykjavík er byggð 1846 og á sér ríka sögu.
Mynd/Andri Marínó

„Það sést svo greinilega á náminu að það var ekki byggt fyrir fjarnám. Kennararnir eru samt að reyna sitt besta.“

Lélegt internet lækkar einkunnir

„Þegar fjarnáminu stóð þá vaknaði maður, kveikti á tölvunni og horfði á fyrirlestra frá 9-4.“ segir Katrín Valgerður. „Glápandi á skjá allan daginn. Svo fer maður að vinna heimavinnu í tölvunni. Svo fer maður að sofa. Síðan vaknar maður og horfir á fyrirlestra frá 9-4. Og svona heldur það áfram.“

Ég velti því fyrir mér hvort að dagurinn í dag verði síðasti dagurinn minn í skólanum án þess að ég viti af því.

„Þetta er svo ömurleg staða eitthvað, ég skil að stjórnvöld og þeir sem ráði þessu vilji hafa fjarnám. En þetta bitnar svo rosalega mikið á náminu og á andlegri heilsu hjá nemendum,“ segir Embla.

„Svo er dökka hliðin á þessu. Það eru sumir sem búa við heimilisofbeldi og slæmar aðstæður,“ segja þær. „Þá er svo mikilvægt að geta mætt í skólann.“

Katrín bætir við: „Og slæmt internet, það getur bitnað mikið á náminu.“ Embla svarar: „Ég þekki tvær stelpur sem voru með enskukynningu og önnur þeirra bjó út í sveit. Hún fékk lægri einkunn af því að hún fór yfir tímann í prófinu, af því að netið datt út og hún þurfti alltaf að byrja aftur.“

Þær bæta við að áreiti heima við geti líka valdið því að fólk geti ekki lært heima hjá sér. „Hvert á maður að fara? Á kaffihús? Þar eru læti og á Þjóðarbókhlöðunni þarftu að hafa þögn og getur ekki svarað kennaranum.“

„Ég velti því fyrir mér hvort að dagurinn í dag verði síðasti dagurinn minn í skólanum án þess að ég viti af því,“ segir Katrín Valgerður. „Og verður útskrift?“

Embla Waage er meðritstjóri Framhaldsskólablaðsins og Katrín Valgerður Gustavsdóttir er í ritnefnd. Áhugasamir geta lesið nýjasta tölublaðið hér.