Lisa Montgomery verður að óbreyttu tekin af lífi í Indiana-ríki í dag. Hún verður þar með ellefti fanginn sem alríkisyfirvöld taka af lífi frá því að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hóf aftur aftökur í júlí eftir 16 ára hlé. Trump varð þá fyrsti forsetinn í 130 ár til að heimila aftökur á stjórnarskiptatíma. Dómsmálaráðuneytið hefur ekki svarað bón verjenda hennar um að hún verði dæmd í lífstíðarfangelsi fremur en til dauða.

Joe Biden tilvonandi forseti er andsnúinn dauðarefsingum að sögn talsmanns hans. Biden hefur ekki tilkynnt hvort hann muni stöðva aftökur á alríkisföngum er hann tekur við embætti 20. janúar.

Montgomery var dæmd til dauða árið 2007 fyrir mannrán og morðið á hinni 23 ára gömlu Bobbie Jo Stinnett árið 2004 sem var komin átta mánuði á leið. Montgomery skar barnið úr kvið hennar og lét sem það væri sitt uns hún var handtekin degi síðar. Barnið lifði ódæðið af og var komið til föður síns.

Málsvörn lögfræðinga Montgom­ery var að hún hafi ekki verið meðvituð um gjörðir sínar vegna geðraskana. Kviðdómur féllst ekki á það og dæmdi hana til dauða, þar sem henni hafi verið ljóst hve alvarlegan glæp hún framdi. Verjendur Montgomery voru síðar gagnrýndir fyrir málsvörnina. Alvarleiki geðraskana sem hrjáðu hana er morðið átti sér stað kom ekki að fullu fram við réttarhöldin, einungis við áfrýjun er Montgomery var komin með nýja verjendur. Þeir fullyrða að Montgomery hafi glímt við langvinnan heilakvilla vegna áverka sem hún hefur orðið fyrir um ævina. Verjendurnir hafa beðið yfirvöld um að dæma hana frekar til lífstíðarfangelsis en dauða. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur dæmt aftökur á andlega vanhæfu fólki ólöglegar og á Montgomery rétt á að sérfræðingur meti hana sem er ekki mögulegt vegna COVID-19 faraldursins.

Í fangelsi hefur Montgomery sagt frá ævi sinni fram að morðinu í samræðum við sérfræðinga. Hún fæddist með áfengisheilkenni, ólst upp við erfiðar aðstæður og var frá unga aldri beitt grófu líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Hálfsystir hennar var fjarlægð af heimilinu af barnaverndaryfirvöldum en ekki Montgomery og ofbeldinu linnti ekki.

Þrátt fyrir að hún gerði viðvart um ofbeldið hlaut Montgomery aldrei neina aðstoð. Hún giftist stjúpbróður sínum 18 ára gömul sem beitti hana einnig miklu ofbeldi. Er hún varð eldri glímdi hún við ýmsar geðraskanir og átti erfitt með að halda tengingu við raunveruleikann.