Verðtryggðar skuldir íslenskra heimila eru um þessar mundir um 1.550 milljarðar íslenskra króna. Miðað við verðbólgu síðustu 12 mánaða, 8,8 prósent, hafa skuldirnar hækkað um 136,4 milljarða króna vegna verðbólgu.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir áhugavert að útflutningsverð á helstu mikilvægustu fiskafurð Íslands, þorskinum, hafi árið 2021 numið 136 milljörðum, nákvæmlega sömu fjárhæð og hækkun verðtryggðra skulda heimila hér á landi vegna verðbólgunnar nemur.

Til hvers var barist?

„Maður veltir fyrir sér til hvers hafi verið barist þegar við háðum þrisvar sinnum þorskastríð við Breta. Þetta eru raunveruleg verðmæti sem við fáum fyrir söluna út á þorski en á sama tíma erum við með verðtryggingu skulda íslenskra heimila sem skila fjármálakerfinu sömu upphæð og allur þorskurinn okkar. Ég get ekki skilið þessa hagfræði en ég veit að hún er vond,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir galið að við höfum varið þorskstofninn fyrir ásókn erlendra ríkja til þess eins að verðtryggingin svipti burt ábata almennings, að pappírsfjármunir færist til í stað efnislegra fjármuna.

„Starfsmenn Landhelgisgæslunnar lögðu sig í stórhættu, við hættum lífi fólks til að verja þessa hagsmuni. Svo umbreytist höfuðstóll verðtryggðra lána vegna verðbólgu og allt brennur upp. Þetta er galið og gjörsamlega óverjandi,“ segir Vilhjálmur.