Meðalfermetraverð í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu fyrstu þrjá mánuði ársins var 625.000 krónur.
Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá sem fasteignasalan Pálsson birtir á heimasíðu sinni er hæsta verðið í miðborginni. Þar kostar fermetrinn nú að meðaltali 744.000 krónur miðað við þau fasteignaviðskipti sem áttu sér stað fyrstu þrjá mánuði ársins.
Næsthæst er fermetraverðið á Seltjarnarnesi, 702.000 krónur. Garðabæ vermir þriðja sætið yfir heitustu staðina en þar er meðalverð á fermetra 686.000 krónur.
Lægst er fermetraverðið í Breiðholti, 471.000 krónur. Munurinn á miðborginni og Breiðholti er 58 prósent.
Hannes Steindórsson, formaður Félags fasteignasala, segir verðmun eftir hverfum vera að aukast. Í því samhengi verði þó að hafa í huga að fermetraverð ráðist hverju sinni af aldri húsnæðis, stærð og fleiri þáttum.
Því geti verið um ýktan mun að ræða í þessu tilviki, of fáar sölur til að hægt sé að álykta um of.