Hugverkaiðnaðurinn á Íslandi er í stórsókn, en svo mikill vöxtur hefur hlaupið í atvinnugreinina að ráðningafyrirtæki hafa ekki undan við að útvega nýsköpunarfyrirtækjum á þessu sviði vel menntað tæknifólk.

„Það er fullt af spennandi fyrirtækjum að koma inn á þennan markað hér á landi – og hann iðar af lífi,“ segir Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs, sem segir greinina hreinlega soga til sín vinnuafl sem aldrei fyrr.

„Síðustu mánuði hefur verið bullandi eftirspurn eftir vel menntuðu tæknifólki hjá þessum ört vaxandi fyrirtækjum – og ef aðeins er horft til fyrstu daga þessa árs er ekkert lát á eftirspurninni heldur þvert á móti,“ segir Katrín.

Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs.

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, tekur undir orð Katrínar og segir þau vera algerlega í samræmi við það sem félagsmenn samtakanna hafi orðið varir við á síðustu mánuðum og misserum, en vöxturinn sé þar að auki staðfestur í opinberum hagtölum.

„Vaxtartækifæri greinarinnar eru gríðarlega mikil til framtíðar – og eru líklega meiri en við gerum okkur grein fyrir,“ segir Sigríður, en bendir svo á augljósa ógnun inni á milli tækifæranna.

„Við stöndum ef til vill frammi fyrir náttúrulegum hindrunum í þessum atvinnugeira,“ segir hún og á við að tækninámið á Íslandi anni ekki þeirri ríku eftirspurn sem er eftir starfsfólki í greinina.

„Framhaldsnámið hér á landi verður að fara að taka meira mið af þróttmiklum vexti framsækinna nýsköpunarfyrirtækja hér á landi,“ segir hún.

„Þetta eru stærstu gleðifréttirnar í íslensku atvinnulífi,“ bendir Katrín á. „Ungs og vel menntaðs tæknifólks á Íslandi bíða vel launuð verkefni í einstaklega spennandi vinnu­umhverfi sem sækir fram af miklu afli í alþjóðlegu umhverfi.“Og Sigríður setur vöxtinn í kunnuglegt samhengi.

„Hugverkaiðnaðurinn er orðinn jafn stór og íslenskur sjávarútvegur hvað varðar verðmæti útflutnings og stefnir fram úr honum á næstunni. Verðmæti útflutningsins í þessari grein hefur tvöfaldast frá 2013 og allt bendir til þess að hugverkaiðnaðurinn verði stærsta og verðmætasta útflutningsgrein Íslands innan örfárra ára,“ segir Sigríður Mogensen.

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs hjá Samtökum iðnaðarins.
Fréttablaðið/Ernir