Orku­veita Reykja­víkur, HS Orka og Lands­virkjun hafa saman lagt til 36 milljónir til að gera upp gufu­borinn Dofra og mun hann verða til sýnis við Elliða­ár­stöð í Elliða­ár­dal.

Gufu­borinn Dofri olli straum­hvörfum í borun eftir heitu vatni og gufu hér á landi þegar út­breiðsla hita­veitna hér á landi var örust. Í ljósi þess mikla sparnaðar, bæði fyrir buddur al­mennings og um­hverfið, sem hita­veitunni fylgja má segja að borinn sé ein­hver allra verð­mætasta ein­staka vinnu­vél Ís­lands­sögunnar.

Rétt eins og Gufu­borinn, eins og hann var fyrst kallaður, gerði lands­mönnum kleift að fara úr olíu­kyndingu í hita­veitur, hóf borinn sjálfur feril sinn í olíu­bransanum í Banda­ríkjunum. Reykja­víkur­borg og ríkið sam­einuðust um kaup á honum árið 1957. Fyrsta holan var boruð með honum við gatna­mót Nóa­túns og Sig­túns í Reykja­vík og sú síðasta árið 1991 við Kröflu í Mý­vatns­sveit.

Dofri við borun 1958 á Undralandstúninu í Reykjavík, nú við Nóatún. Líklega er gufuborinn þarna að bora sína fyrstu holu.
Mynd/PéturThomsen

Þess á milli átti þessi bor stærstan þátt í borun fyrir hita­veituna á höfuð­borgar­svæðinu í Mos­fells­bæ, í Reykja­vík og á Nesja­völlum meðan hita­veitu­væðingu höfuð­borgar­svæðisins var að ljúka eftir olíu­kreppuna á 8. ára­tug síðustu aldar.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Orku­veitunni eru afar fá jarð­hita­svæðin sem Dofri snerti ekki á. Hann var notaður í Svarts­engi, á Reykja­nesi, á Sel­tjarnar­nesi, í Hvera­gerði og í Krýsu­vík. Svo kom hann í Mý­vatns­sveitina og boraði bæði í Bjarnar­flagi og við Kröflu og reyndar miklu víðar – meira að segja í Fær­eyjum.

„Borinn var að drabbast niður þegar HS Orka hafði frum­kvæði að því, á vett­vangi Ís­lenska jarð­hitaklasans, að þessari merku sögu yrði sómi sýndur með því að gera Dofra upp,“ segir Birna Braga­dóttir for­stöðu­kona Ellið­ár­stöðvar.

Það er vél­smiðjan VHE í Hafnar­firði sem sér um við­gerðina en að henni lokinni verður þessum merka bor komið fyrir við Elliða­ár­stöð, á­fanga­stað við gömlu raf­stöðina í Elliða­ár­dal, sem Orku­veita Reykja­víkur byggir nú upp.

„Við erum af­skap­lega stolt og á­nægð yfir því að fá Dofra til okkar í Elliða­ár­dalinn enda hefur hann svo sannar­lega skipt sköpum í okkar sögu. Hann verður nú hluti af á­fanga­stað sem við erum að byggja upp í dalnum og munum við gera honum góð skil,“ segir Birna.