„Við höfum bæði brennandi ástríðu fyrir því berjast fyrir velferð barna og unglinga og styðja þau í að tileinka sér virðingu fyrir sér og öðrum,“ segir Andrea Marel, deildarstjóri í frístundamiðstöðinni Tjörninni, en verkefni hennar og samstarfsfólks, Flotinn, var eitt af 12 verkefnum sem tóku á móti hvatningarverðlaunum skóla- og frístundaráðs sem veitt voru í vikunni.

Átta nýbreytni- og þróunarverkefni í skóla- og frístundastarfi í borginni fengu þar viðurkenningu sem og fjögur samstarfsverkefni í leik-, grunn- og frístundamiðstöðva sem fengu sérstaka viðurkenningu. Kærasti Andreu, Kári Sigurðsson, tók einnig á móti verðlaunum fyrir hönd félagsmiðstöðvarinnar Hólmasels fyrir kynfræðslu í Seljahverfi sem hefur síðastliðin þrjú ár farið fram sem tilraunaverkefni undir handleiðslu Jafnréttisskóla Reykjavíkur.

„Flotinn samanstendur af hópi frístundaráðgjafa sem ferðast um borgina til að vera til staðar fyrir börn og unglinga. Starfið fer að mestu fram eftir að útivistartíma lýkur og á sumrin þegar mestallt annað starf er í sumardvala. Markmið Flotans er að stuðla að öryggi og velferð unglinga, vinna gegn óæskilegri hópamyndun og draga úr áhættuþáttum í umhverfi þeirra,“ segir Andrea.

Ungmenni í Reykjavík hafa lengi barist fyrir því að fá meiri og fjölbreyttari kynfræðslu inní skólana

Kári segir að upprunalega hafi planið verið að fara bara í Seljaskóla en verkefnið hafi verið það spennandi og mikilvægt að það var ekki annað hægt en að fá Ölduselsskóla í samstarf. „Ástæðan fyrir því að þetta verkefni fór af stað var að ungmenni í Reykjavík hafa lengi barist fyrir því að fá meiri og fjölbreyttari kynfræðslu inní skólana,“ segir Kári.

Aðspurð hvað það sé sem vanti í starf félagsmiðstöðva á Íslandi stendur ekki á svari. „Fyrst og fremst er ótrúlegt að það sé ekki ennþá búið að lögbinda þjónustu félagsmiðstöðva á Íslandi. Þetta þarf að laga sem allra fyrst enda hafa félagsmiðstöðvar fyrir löngu sýnt hversu stóran og veigamikinn þátt þær hafa í forvarnastarfi og félagslegu uppeldi æsku landsins,“ segir Andrea.

Eðlilega þá er mikið rætt um starf félagsmiðstöðva á heimilinu en þau hafa einnig getið sér góðan orðstír með FokkMe-FokkYou fyrirlesturinn sem þau eru með á sinni könnu. „Við ræðum starfið trúlega alltof mikið en fyrir utan það að vinna með sama aldurshóp erum við líka með lítið fræðslufyrirtæki FokkMe-FokkYou og förum reglulega með fræðslur inní grunnskóla, félagsmiðstöðvar og til foreldra og starfsfólk. Þessar fræðslur hafa allar það sameiginlegt að snúast um samskipti og samfélagsmiðla,“ segir Kári.