Leikskólinn Rauðhóll hlaut Íslensku menntaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á miðvikudaginn, en leikskólinn hlaut verðlaun í flokknum Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur.

Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum.

„Ég er mjög stolt, en þetta er annað árið í röð sem við erum tilnefnd og ákveðin viðurkenning á starfinu sem við erum búnar að vera að vinna undanfarin fimmtán ár,“ segir Guðrún Sólveig, leikskólastjóri Rauðhóls.

Leikskólinn Rauðhóll vinnur út frá hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði sem Guðrún Sólveig segir að sé að gefast gríðarlega vel.

Guðrún Sólveig Vignisdóttir, leikskólastjóri Rauðhóls.

„Þetta er bæði unnið út frá starfsmönnum og börnum, út frá styrkleika hvers og eins. Að þeir finni í hverju þeir eru sterkir svo þeim líði sem best í leikskólanum. Og þá líka að reyna að finna tíma og ró þannig að bæði börnin og starfsmenn nái andrúmi og flæði, að gleyma stað og stund og fá verkefni sem eru ekki of erfið og ekki of létt, svo þau finni styrkleika sína,“ segir hún.

Þá sé passað upp á truflanir í starfinu og að dagskráin sé ekki of stíf.

„Það getur verið ofsalega mikið áreiti í leikskóla og við reynum að fækka stundum sem við erum öll saman. Við náum því að fara út úr þessari hringiðu, fara í flæði og finna styrkleika okkar,“ segir Guðrún Sólveig.