Ís­land er enn nota­legur staður fyrir ferða­menn en stað­reyndin er sú að það þykir ekki lengur svalt að fara til Ís­lands. Þetta er mat Tim John­son, pistla­höfundar Daily Beast, en hann hefur í starfi sínu sem blaða­maður ferðast til 138 landa og unnið til nokkurra verðlauna.

Í nýjasta pistli sínum rifjar hann upp að fyrir ekki svo löngu hafi Ís­land verið framandi og hálf furðu­legur staður til að sækja heim. „Þegar maður sagði vinum sínum hvert maður væri að fara hristu þeir hausinn og spurðu: „Ertu að fara HVERT?““

Í dag sé öldin aftur á móti önnur og í dag hafi nánast allir farið til Ís­lands. Þetta eigi til dæmis við um sumarið sem er að líða; mið­bær Reykja­víkur hafi verið stút­fullur af er­lendum ferða­mönnum sem borguðu fúlgur fjár til að komast í Bláa lónið og morð­fjár fyrir stutt leigu­bíla­skutl.

„Og frænka þín, þessi sem er alltaf í kvart­buxum? Hún er pott­þétt í ein­hverri rútu­ferð á Ís­landi núna,“ segir hann.

Tim segir í grein sinni að ekki megi mis­skilja hann. Ís­land sé virki­lega nota­legur á­fanga­staður fyrir ferða­menn.

„Ef þú hefur ekki farið til Ís­lands, ættirðu lík­lega að fara,“ segir hann og nefnir eld­fjöllin og náttúru­laugarnar máli sínu til stuðnings. „Málið er bara það að Ís­land er ekki svalt lengur. Það fór þegar Peggy frænka steig út úr flug­vélinni í kvart­buxunum,“ segir hann og vill meina að annar staður hafi tekið við keflinu af Ís­landi sem svalasti ferða­manna­staðurinn: Græn­land.

Tim heim­sótti Græn­land í sumar og hreifst mjög af landinu eins og lesa má nánar um í grein hans á vef Daily Beast.