Mikill munur getur verið á verði trygginga hjá tryggingarfélögum samkvæmt nýrri verðkönnun Verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands, ASÍ.

Niðurstöðurnar sína að Vörður tryggingarfélag var með lægsta tilboð í tryggingar í fimm af sex tilfellum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ.

Í tilkynningu ASÍ segir að Vörður hafi verið með lægsta tilboð í alla stærri tryggingapakka sem innihéldu margar tryggingar. Mest var 37 prósenta munur, eða tæplega 90 þúsund krónur, á hæsta og lægsta tilboði tryggingafélaganna í tryggingapakka einstaklings sem innihélt meðal annars bílatryggingu, fjölskyldu- og heimilistryggingu og húseigendatryggingu.

Þá var Vörður með lægsta tilboðið en TM það hæsta, að því er fram kemur í verðkönnun ASÍ.

Mest var 51 prósents, eða um 127 þúsund króna verðmunur á hæsta og lægsta tilboði tryggingafélaganna í lögbundnar ökutækjatryggingar auk bílrúðu- og kaskótrygginga. VÍS bauð lægsta tilboðið eða TM var aftur með það hæsta.

Hæsta og lægsta verð

Í tilkynningunni er settur sá fyrirvari á niðurstöðurnar að einhver munur geti verið á tryggingum milli tryggingafélaga vegna ólíkra skilmála og mun á tryggingafjárhæðum sem hafi þó alltaf verið stilltar af svo þær væru sem næst því að vera eins.

Samkvæmt frekar niðurstöðum ASÍ voru fjölskyldu- og heimilistryggingar ódýrastar hjá Verði en barna- og brunatryggingar ódýrastar hjá Sjóvá.

Ökutækjatryggingar dýrastar hjá TM en húseigendatryggingar og fjölskyldu- og heimilistryggingar dýrastar hjá VÍS.

Kostnaður við greiðsludreifingu var hæstur hjá TM og VÍS.

Tryggingar hækkað mikið

Þá segir einnig að verð á tryggingum hafi hækkað umfram hækkanir á vísitölu neysluverðs á síðustu tveimur árum, þrátt fyrir mikinn hagnað tryggingafélaganna og háar arðgreiðslur.

Verðlagseftirlit ASÍ hvetur neytendur til að óska eftir tilboðum í sínar tryggingar með reglulegu millibili og þannig leita leiða til að lækka útgjöld í tryggingar, sem geta verið há.

Samkvæmt lögum sé neytendum heimilt að segja upp tryggingum sínum með eins mánaðar fyrirvara vilji þeir skipta um tryggingarfélag.

Í könnun ASÍ var leitað tilboða hjá Sjóvá, TM, VÍS og Verði.