Mest varð hækkunin hjá Heimkaupum, 16,6 prósent, en minnst í Krónunni, 5,1 prósent. Verðbreytingar eru í takti við breytingar á vísitölu neysluverðs, sem sýnir hækkun á mat og drykkjarvörum upp á 6,2 prósent.
Karfan hækkar næst mest hjá Iceland, 12,4 prósent, og næst minnsta hækkunin var hjá Bónus, 5,7 prósent.
Í Heimkaupum hækkuðu drykkjarvörur mest, eða um 33,8 prósent, en kjötvara minnst, 6,7 prósent. Í Iceland voru það mjólkurvörur sem hækkuðu mest, eða um 24,1 prósent, sem var mesta hækkun þess vöruflokks í könnuninni.
Ef verslanir með meira vöruúrval eru skoðaðar kemur í ljós að Hagkaup hækkar um 6,5 prósent, Kjörbúðin um 7,5 prósent og Krambúðin um 8,9 prósent.
Af lágvöruverðsverslunum hækkaði vörukarfan mest í Nettó, 8,7 prósent. Þar hækkuðu kjötvörur, mjólkurvörur, ostur og egg um 11 prósent. Minnst hækkun varð í Nettó á drykkjarvöru, 1,6 prósent.
Athygli vekur að almennt urðu mestar hækkanir í flokki mjólkurvara, osta og eggja, eða á bilinu 8-25 prósent. Meðaltalshækkun í flokknum varð 14,2 prósent og miklar hækkanir urðu í öllum verslunum.

Íslenska ferskvaran hækkar mest
Raunar blasir við að íslensk ferskvara hækkar mest, meira en innflutt ferskvara og meira en unnin matvæli, bæði innlend og innflutt.
Auður Alva Ólafsdóttir, sérfræðingur í umhverfis- og neytendamálum og verkefnisstjóri verðlagseftirlits ASÍ, skrifaði grein í Vísbendingu 27. maí síðastliðinn, og fjallar um faraldur, fákeppni og verðhækkanir á matvöru.
Hún bendir á að frá því að heimsfaraldurinn hófst fyrir rúmum tveimur árum hefur verð á matvöru hækkað um 13,3 prósent. Þetta er mesta hækkun á mat- og drykkjarvöru frá því í hruninu. Til samanburðar bendir hún á að á tíu ára tímabili, frá apríl 2012 til apríl 2022, hækkuðu þessar vörur um 32,1 prósent.
Auður Alva heldur því fram að lítil verðsamkeppni sé á íslenskum matvörumarkaði. Ástæðan sé fákeppni á markaðnum. Hún segir fákeppnina hafa í för með sér að eitt fyrirtæki taki að sér að setja verðgólf. Aðrir reyni ekki að rjúfa það gólf heldur birtist samkeppnin í öðru en verði, til dæmis hærra þjónustustigi, markaðssetningu og auglýsingum.