„Verðhækkanir vinna gegn meginmarkmiði kjarasamninganna sem er stöðugt verðlag og að standa vörð um kaupmátt sem náðst hefur á undanförnum árum, með það að marki að skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta til framtíðar,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), í samtali við Fréttablaðið.

ÍSAM, heildsölu- og framleiðslufyrirtæki sem á Mylluna, Ora, Kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna hefur boðað 3,9 prósent hækkun á öllum vörum fyrirtækjanna verði kjarasamningar samþykktir. Fréttablaðið hefur fjallað um fyrirhugaðar verðhækkanir ÍSAM en í dag var síðan greint frá því að Gæðabakstur hygðist hækka verð á sínum vörum um 6,2 prósent vegna hækkunar á verði hveitis og gengis, auk kjarasamninganna. Síðastnefndi þátturinn hljóðar upp á þriggja prósent hækkun.

Halldór segir að fyrirætlanir fyrirtækjanna rími illa við ofangreint markmið samninganna. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í samtali við Fréttablaðið dag að ef fyrirtæki ætluðu að feta þessa braut væri ljóst að samningar myndu ekki halda. Verðhækkanirnar ógnuðu þannig kjarasamingum.

Sjálfur segir Halldór að fleiri þættir spili þarna inn í. Hins vegar vinni þessar hækkanir gegn samningunum og það geti SA ekki tekið undir.

„Ég held að þessi verðhækkun sé fyrst og fremst sé klaufalega orðuð. Auðvitað eru þetta fleiri þættir en bara launaþáttur sem geta komið til. En ég endurtek það sem ég segi, verðhækkanir af þessum toga vinna gegn meginmarkmiði kjarasamningsins og eru þar af leiðandi ekki eitthvað sem Samtök atvinnulífsins geta tekið undir,“ segir Halldór Benjamín að lokum.