Íslandsbanki býst við að tólf mánaða verðbólga hækki lítið eitt í ágúst og fari í 10 prósent en Landsbanki býst við óbreyttri verðbólgu frá því í júlí, 9,9 prósent.

Veritabus býst við að raunveruleg tólf mánaða verðbólga lækki um 0,1 prósent og fari í 9,8 prósent en telur að Hagstofan muni mæla verðbólguna 10 prósent og að munurinn stafi af mismunandi tímasetningu á mælingum.

Veritabus telur að í mælingu Hagstofunnar muni ferðir og flutningar, sem verið hafa mikill drifkraftur verðhækkana síðustu tólf mánuði, lækka um 2,5 prósent milli mánaða. Húsnæði, hiti og rafmagn hækki um 1,1 prósent milli mánaða.

Mestu hækkanir milli mánaða verða á fötum og skóm, 5,5 prósent, og húsgögnum og heimilisbúnaði, 2 prósent. Þessar hækkanir stafa að mestu af útsölulokum.

Matvara, húsnæði og eldsneyti hafa hækkað meira en flestir aðrir liðir síðastliðna tólf mánuði. Í ágúst lækkaði verð á eldsneyti töluvert og fer að mati Veritabus sennilega lækkandi. Matvara virðist einnig hafa hækkað minna en undanfarna mánuði. Margt bendir til þess að húsnæðismarkaður muni róast.

Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs fyrir ágúst í dag.