Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Viðreisnar tókust á um hækkanir á opinberum gjöldum og verðbólgu á Alþingi í dag. Hagstofan tilkynnti í gær um 0,3% hækkun milli desember og janúar sem var töluvert yfir spám greiningardeilda bankanna en hækkun opinbera gjalda spilar þar inn í.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,85% á milli desember og janúar og hefur nú hækkað um 9,9% á ársgrundvelli. Verðbólgan jókst því um því um 0,3 prósentustig frá síðasta mánuði þegar hún mældist 9,6%.
„Stærstu þættirnir sem hækka, bensín, matvörur og áfengi, eru bein afleiðing ákvarðana ríkisstjórnarinnar. Neytendasamtökin hafa dregið þetta ágætlega saman: Hækkanir ríkisstjórnarinnar á bensíni, búsi og búvörum leiða þessar hækkanir,“ sagði Þorgerður Katrín.
Samkvæmt Hagstofunni hækkaði verð á mat- og drykkjarvörum um 2,0% (áhrif á vísitöluna 0,30%). Hluti af þeirri hækkun skýrist af hækkun á mjólk, ostum og eggjum um 4,4% (0,12%). Áfengi og tóbak hækkaði um 5,5% (0,13%).
Íslendingar hafa meiri reynslu af verðbólgu en nágrannaríki
„Allt eru þetta þættir sem ríkisstjórnin gat haft áhrif á en gerði ekki heldur miklu frekar hitt. Hún kynti undir með því að ríða á vaðið í hækkunum og veitti þar með talið sveitarfélögum og fyrirtækjum ákveðna fjarvistarsönnun í sínum hækkunum, eins og við sjáum nú,“ bætti Þorgerður við.
Hún spurði Katrínu hvaða skilaboð ríkisstjórnin væri að senda heimilum landsins með þessum hækkunum og hvað hún ætli að gera til að spyrna við verðbólgunni.
Katrín sagði að verðbólgan hafi verið meðal umræðuefna ríkisstjórnarinnar á fundi sínum í morgun enda væri þetta „eitt brýnasta málið“ sem Ísland væri að glíma við í dag sem og önnur Vesturlönd.
„Við erum að glíma við mestu verðbólgu sem sést hefur um árabil víðast hvar annars staðar, en við Íslendingar höfum kannski meiri reynslu af því að takast á við verðbólgu en flest nágrannaríki okkar,“ sagði Katrín.
Varðandi hækkun opinbera gjalda sagði Katrín það hafði legið fyrir þegar gengið var frá fjárlögum og tekjubandormi fyrir áramót að hækkanirnar myndu hafa áhrif á verðbólgu. Tekjustofnarnir sem hækkuðu höfðu rýrnað á raunvirði á undanförnum árum vegna þess að ríkisstjórnin hefur haldið hækkunum á þeim í lágmarki.
Einföldun að segja áfengis- og tóbaksgjald eina sökudólginn
„Við höfum verið mjög hófstillt í hækkun þessara gjalda og ég tel ekki að það sé réttlætanlegt að þeir rýrni meira við þær aðstæður sem eru uppi,“ sagði Katrín og bætti við að hækkanirnar væru aðeins hluti af vandamálinum.
„Breytingin á gjaldtöku, á krónutölugjöldum, af áfengi, tóbaki og eldsneyti er ætlað að hafa haft u.þ.b. 0,2% áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Við megum ekki gleyma að setja þetta í samhengi við þá staðreynd, af því að hér er talað um álögur á almenning, að þessi ríkisstjórn beitti sér fyrir lækkun tekjuskatts á tekjulægstu einstaklingana sem er eitthvað sem munar raunverulega um fyrir þann hóp,“ sagði Katrín.
„Að benda á hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi sem eina sökudólginn í þessu, það er vægast sagt einföldun,“ bætti hún við að lokum.
Þorgerður sagði ríkisstjórnina hafa kynnt fjármálafrumvarpið í haust á þeim forsendum að það yrði viðspyrna gegn verðbólgu og það ætti að treysta á kaupmáttinn.
„Forsætisráðherra kemst ekki hjá því að átta sig á því að hækkanir ríkisstjórnarinnar á bensíni, á búsinu og á búvörum ekki síst hafa leitt til þess að verðbólgan er núna að hækka en ekki lækka í mánuði sem hún alla jafna á að lækka,“ sagði Þorgerður áður en hún fór yfir langan lista af aðgerðum sem Viðreisn hefði gripið til flokkurinn væri í ríkisstjórn.
„Auðvitað hefðum við líka farið strax í það ferli að losa kverkatakið sem íslenska krónan hefur á heimilum landsins því að annars lenda ekki bara börnin okkar heldur líka barnabörnin og barnabarnabörnin í þessum endalausa rússíbana verðbólgu og okurvaxta,“ sagði Þorgerður.
Katrín sagði að það kæmi sér ekki á óvart að Þorgerður ræki þetta allt saman til íslensku krónunnar.
„Mér þætti gaman að fá að eiga sérstaka umræðu um það hvernig hún skýrir þá verðbólguna í Evrópu, verðbólguna í löndunum í kringum okkur þar sem hún er víðast hvar hærri þrátt fyrir að þau lönd séu ekki með hina stórhættulegu íslensku krónu. Við getum ekki skellt skuldinni af verðbólgunni á íslensku krónuna,“ sagði Katrín.
„Við verðum líka að átta okkur á því að ríkisstjórnin var með aðgerðir gegn þenslu í fjárlagafrumvarpinu, nákvæmlega eins og kynnt var og ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á því, með ákveðnu aðhaldi og með ákveðinni tekjuöflun. Ríkisstjórnin hefur líka gripið til aðgerða til að verja tekjulægstu hópana fyrir áhrifum verðbólgunnar,“ sagði Katrín.
„Ég þarf ekkert að minna hér á húsnæðisstuðninginn, ég þarf ekki að minna á hvernig við gripum strax inn í til að verja kjör þeirra sem fá greiðslur úr almannatryggingum þannig að það er alveg ljóst að við höfum verið á vaktinni. Því er núna spáð að verðbólgan hjaðni á árinu. Það er auðvitað risastórt verkefni fyrir okkur öll. Ekki bara okkur hér heldur líka á vinnumarkaði, að allt geti gengið upp til þess að svo megi verða því að verðbólgan er auðvitað stærsti óvinur almennings í landinu,“ sagði Katrín að lokum.