Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Viðreisnar tókust á um hækkanir á opinberum gjöldum og verðbólgu á Alþingi í dag. Hagstofan tilkynnti í gær um 0,3% hækkun milli desember og janúar sem var töluvert yfir spám greiningardeilda bankanna en hækkun opinbera gjalda spilar þar inn í.

Vísi­tala neyslu­verðs hækkaði um 0,85% á milli desember og janúar og hefur nú hækkað um 9,9% á árs­grund­velli. Verð­bólgan jókst því um því um 0,3 prósentu­stig frá síðasta mánuði þegar hún mældist 9,6%.

„Stærstu þættirnir sem hækka, bensín, mat­vörur og á­fengi, eru bein af­leiðing á­kvarðana ríkis­stjórnarinnar. Neyt­enda­sam­tökin hafa dregið þetta á­gæt­lega saman: Hækkanir ríkis­stjórnarinnar á bensíni, búsi og bú­vörum leiða þessar hækkanir,“ sagði Þor­gerður Katrín.

Sam­kvæmt Hag­stofunni hækkaði verð á mat- og drykkjar­vörum um 2,0% (á­hrif á vísi­töluna 0,30%). Hluti af þeirri hækkun skýrist af hækkun á mjólk, ostum og eggjum um 4,4% (0,12%). Á­fengi og tóbak hækkaði um 5,5% (0,13%).

Íslendingar hafa meiri reynslu af verðbólgu en nágrannaríki

„Allt eru þetta þættir sem ríkis­stjórnin gat haft á­hrif á en gerði ekki heldur miklu frekar hitt. Hún kynti undir með því að ríða á vaðið í hækkunum og veitti þar með talið sveitar­fé­lögum og fyrir­tækjum á­kveðna fjar­vistar­sönnun í sínum hækkunum, eins og við sjáum nú,“ bætti Þor­gerður við.

Hún spurði Katrínu hvaða skila­boð ríkis­stjórnin væri að senda heimilum landsins með þessum hækkunum og hvað hún ætli að gera til að spyrna við verð­bólgunni.

Katrín sagði að verð­bólgan hafi verið meðal um­ræðu­efna ríkis­stjórnarinnar á fundi sínum í morgun enda væri þetta „eitt brýnasta málið“ sem Ís­land væri að glíma við í dag sem og önnur Vestur­lönd.

„Við erum að glíma við mestu verð­bólgu sem sést hefur um ára­bil víðast hvar annars staðar, en við Ís­lendingar höfum kannski meiri reynslu af því að takast á við verð­bólgu en flest ná­granna­ríki okkar,“ sagði Katrín.

Varðandi hækkun opin­bera gjalda sagði Katrín það hafði legið fyrir þegar gengið var frá fjár­lögum og tekju­band­ormi fyrir ára­mót að hækkanirnar myndu hafa á­hrif á verð­bólgu. Tekju­stofnarnir sem hækkuðu höfðu rýrnað á raun­virði á undan­förnum árum vegna þess að ríkis­stjórnin hefur haldið hækkunum á þeim í lág­marki.

Einföldun að segja áfengis- og tóbaksgjald eina sökudólginn

„Við höfum verið mjög hóf­stillt í hækkun þessara gjalda og ég tel ekki að það sé rétt­lætan­legt að þeir rýrni meira við þær að­stæður sem eru uppi,“ sagði Katrín og bætti við að hækkanirnar væru að­eins hluti af vanda­málinum.

„Breytingin á gjald­töku, á krónu­tölu­gjöldum, af á­fengi, tóbaki og elds­neyti er ætlað að hafa haft u.þ.b. 0,2% á­hrif til hækkunar á vísi­tölu neyslu­verðs. Við megum ekki gleyma að setja þetta í sam­hengi við þá stað­reynd, af því að hér er talað um á­lögur á al­menning, að þessi ríkis­stjórn beitti sér fyrir lækkun tekju­skatts á tekju­lægstu ein­stak­lingana sem er eitt­hvað sem munar raun­veru­lega um fyrir þann hóp,“ sagði Katrín.

„Að benda á hækkun á á­fengis- og tóbaks­gjaldi sem eina söku­dólginn í þessu, það er vægast sagt ein­földun,“ bætti hún við að lokum.

Þor­gerður sagði ríkis­stjórnina hafa kynnt fjár­mála­frum­varpið í haust á þeim for­sendum að það yrði við­spyrna gegn verð­bólgu og það ætti að treysta á kaup­máttinn.

„For­sætis­ráð­herra kemst ekki hjá því að átta sig á því að hækkanir ríkis­stjórnarinnar á bensíni, á bú­sinu og á bú­vörum ekki síst hafa leitt til þess að verð­bólgan er núna að hækka en ekki lækka í mánuði sem hún alla jafna á að lækka,“ sagði Þor­gerður áður en hún fór yfir langan lista af að­gerðum sem Við­reisn hefði gripið til flokkurinn væri í ríkis­stjórn.

„Auð­vitað hefðum við líka farið strax í það ferli að losa kverka­takið sem ís­lenska krónan hefur á heimilum landsins því að annars lenda ekki bara börnin okkar heldur líka barna­börnin og barna­barna­börnin í þessum enda­lausa rússí­bana verð­bólgu og okur­vaxta,“ sagði Þor­gerður.

Katrín sagði að það kæmi sér ekki á ó­vart að Þor­gerður ræki þetta allt saman til ís­lensku krónunnar.

„Mér þætti gaman að fá að eiga sér­staka um­ræðu um það hvernig hún skýrir þá verð­bólguna í Evrópu, verð­bólguna í löndunum í kringum okkur þar sem hún er víðast hvar hærri þrátt fyrir að þau lönd séu ekki með hina stór­hættu­legu ís­lensku krónu. Við getum ekki skellt skuldinni af verð­bólgunni á ís­lensku krónuna,“ sagði Katrín.

„Við verðum líka að átta okkur á því að ríkis­stjórnin var með að­gerðir gegn þenslu í fjár­laga­frum­varpinu, ná­kvæm­lega eins og kynnt var og ég þakka hv. þing­manni fyrir að vekja at­hygli á því, með á­kveðnu að­haldi og með á­kveðinni tekju­öflun. Ríkis­stjórnin hefur líka gripið til að­gerða til að verja tekju­lægstu hópana fyrir á­hrifum verð­bólgunnar,“ sagði Katrín.

„Ég þarf ekkert að minna hér á hús­næðis­stuðninginn, ég þarf ekki að minna á hvernig við gripum strax inn í til að verja kjör þeirra sem fá greiðslur úr al­manna­tryggingum þannig að það er alveg ljóst að við höfum verið á vaktinni. Því er núna spáð að verð­bólgan hjaðni á árinu. Það er auð­vitað risa­stórt verk­efni fyrir okkur öll. Ekki bara okkur hér heldur líka á vinnu­markaði, að allt geti gengið upp til þess að svo megi verða því að verð­bólgan er auð­vitað stærsti ó­vinur al­mennings í landinu,“ sagði Katrín að lokum.