Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir verðbólguna búa til auknar kröfur um launahækkanir.

Þetta segir Drífa í samtali við Þóru Arnórsdóttur í Silfrinu á RÚV í dag.

Drífa segir að oft sé talað um að verðbólga verði til eftir launahækkanir en hún bendir á að launahækkanir séu stöðugt að reyna halda í við verðbólgu. Það væri ekki alveg klárt hvort kæmi á undan, eggið eða hænan í þeim málum.

Að sögn Drífu sé eitt af stóru viðfangsefnum stjórnmálanna að vernda þau lífskjör almennings. Hún segir ASÍ vera skoða verðhækkanir á helstu nauðsynjavörum fólks, sem dæmi húsnæði, samgöngukostnaði og matvörum. Þetta séu þeir vöruflokkar sem hafa hækkað mest í verði undanfarið.

Drífa segir ASÍ gera þá kröfu til birgja og þeirra stórverslana sem komu vel út úr Covid-19 að skila hækkunum ekki út í verðlag. Hún segir fjölmarga aðila hafa komið vel út úr faraldrinum.

Þá séu einnig gerðar kröfur á lánastofnanir, þær nýti það svigrúm sem til er og skili vaxtahækkunum ekki út í hærri lánum, „þær virðast vera halda aftur að sér.“

Húsnæðismarkaðurinn var ræddur en hann er jafnframt stærsti liðurinn í útgjöldum fólks. Drífa sagði að ýmis loforð sem gefin voru í tengslum við lífskjarasamningana 2019 hafi ekki verið efnd.

Nefnir hún þar sem dæmi hina svokölluðu leigubremsu, það frumvarp hafi verið unnið í samstarfi við ASÍ en hafi ekki farið í gegn. Ekki heldur frumvarp um vexti og verðtryggingu.

Þá segir Drífa að dregið hafi mjög úr vaxtabótakerfinu, ríkisstuðningur hafi færst meira í stofnframlög til leiguíbúða, sem væri mjög góð þróun. Það hafi reynst virka best fyrir lægst launaðasta fólkið á vinnumarkaðnum.

Drífa segir húsnæðismarkaðinn eitt stærsta málið. Hún segir vandamál hve stór hluti þeirra sem kaupa íbúðir í dag væru fjárfestar en ekki fólk sem væri að kaupa íbúð til að búa í.

„Húsnæðismarkaðurinn á að vera til fyrir fólk til að hafa öruggt og gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum,“ segir Drífa.

Að sögn Drífu ættu fjármagnseigendur og Airbnb íbúðir að mæta afgangi á húsnæðismarkaðnum. Koma þurfi upp reglum um Airbnb íbúðir svo þær spæni ekki upp húsnæðisverð.