Verðbólga hækkar enn og hefur ekki verið hærri í tólf ár. Ekki verður séð að miklar stýrivaxtahækkanir Seðlabankans undanfarna 12 mánuði hafi mikil áhrif.

Vísitala neysluverðs í maí 2022 hækkar um 0,77 prósent frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar um 0,42 prósent frá apríl.

Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 0,9 prósent (áhrif á vísitöluna 0,14 prósent), reiknuð húsaleiga hækkaði um 2,3 prósent (0,43 prósent), verð á nýjum bílum hækkaði um 2,1 prósent (0,11 prósent) og verð á bensíni og olíum hækkaði um 2,9 prósent (0,10 prósent). Verð á flugfargjöldum til útlanda lækkaði um 6,9 prósent (-0,14 prósent).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 7,6 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 5,5 prósent.

Skarpar stýrivaxtahækkanir Seðlabankans undanfarna 12 mánuði virðast lítil áhrif hafa á verðbólguna. Ekki þarf það koma á óvart þar sem verðbólgan er að stærstum hluta annars vegar innflutt og hins vegar vegna skorts á húsnæði. Íslensk peningastefna virðist hafa takmörkuð áhrif á verðbólgu erlendis og ekki hefur verið sýnt fram á að vaxtahækkanir skili sér í auknu framboði húsnæðis á viðráðanlegu verði.