Skákkennarinn Kristófer Gautason ákvað með skömmum fyrirvara að bjóða upp á netskákmót fyrir íslensk börn á vinsælasta skákþjóni heims, Chess.com. Hann renndi blint í sjóinn með þátttökuna á fyrstu mótunum sem fóru fram á fimmtudaginn, en 177 börn mættu til leiks sem Kristófer segir hafa komið sér í opna skjöldu.

„Það var afar ánægjulegt að sjá þessa miklu þátttöku. Skákin er nánast hönnuð fyrir netið og því mjög skemmtilegt að geta kynnt börn fyrir þessum möguleika til að keppa við jafnaldra og stytta sér stundir“ segir Kristófer.

Hann hafði samband við öll sveit-arfélög á höfuðborgarsvæðinu og að endingu tóku fimm þeirra þátt, Reykjavík, Garðabær, Hafnarfjörð-ur, Kópavogur og Mosfellsbær. „Ég skipulagði sér mót fyrir hvert bæjarfélag á fimmtudaginn og fékk ómetanlega hjálp frá sveit-arfélögunum sem sendu út tilkynn-ingar til allra foreldra um mótin,“ segir Kristófer.

Hann hyggst einnig bjóða upp á skákmót fyrir eldri borgara og tólf höfðu skráð sig í hópinn um hádegi á föstudag. „Það eru fjölmargir eldri borgarar sem tefla á netinu, en ég reyndi að fá þá sem tefla kannski ekki að staðaldri til að taka þátt. Það fer ágætlega af stað. Þeir sem hafa skráð sig eru ekki reglulegir gestir á hefðbundnum skákmótum en vonandi bætast fleiri við,“ segir Kristófer.

Hann hyggst standa fyrir öðru móti fyrir börn í dag, laugardag, og síðan halda áfram að bjóða upp á tvö mót í viku á fimmtudögum og laugardögum. „Það hafa fjölmörg íslensk börn bæst í hópinn á Chess.com og mér sýnist að skráningarnar séu vel yfir þrjú hundruð talsins. Ég vona því að næstu mót verði enn stærri.

Kristófer ætlar þó ekki að láta höfuðborgarsvæðið duga heldur er allt landið undir. „Skáksamband Íslands hefur hjálpað mér við að senda nokkrum sveitarfélögum út á landi boð um þátttöku og viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð. Það mun því vonandi bætast vel við hópinn á næstunni,“ segir Kristófer.

Hann segir að þátttaka í stuttu skákmóti á netinu sé góð tilbreyting á þessum einkennilegu tímum þar sem ofgnótt er af frítíma. „Ég er að minnsta kosti handviss um að krakkar verði klárari af því að tefla en að horfa á Youtube,“ segir Kristófer brosandi.