Hvernig við höndlum þetta Samherjamál er það ekki það sama og við erum að sjá í Verbúðinni? Verbúðin er alveg til í dag og hún er alveg lifandi, segir Atli Þór Fanndal framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International sem eru alþjóðleg samtök sem berjast gegn spillingu. ,,Samherjamálið er risastórt spillingarmál ekki bara á Íslandi heldur í heiminum; það sem kallað er grand curruption on a global scale. Þar var flutt út risavaxin spilling til annara ríkja og aðrir þurftu að líða fyrir það,“ segir Atli sem var gestur á Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi.

Atli Þór Fanndal framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International

Atli Þór segir að aðalstöðvar Transparency International hafa fylgst mjög vel með Samherjamálinu. ,,Samtökin hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau lýsa áhyggjum yfir þeim skilaboðum sem yfirvöld á Íslandi eru að senda og líka fjármálaráðherra með furðulegri færslu á þriðjudag,“ segir Atli.

,,Þú getur ekki sagt að fjölmiðlar í landi séu frjálsir þar sem er lögð ofuráhersla á slíkan forgang eins og sést í rannsókn lögreglustjórans á Norðurlandi eystra að komast að því hvernig þessar upplýsingar komust til fjölmiðla. Og þó svo að það sé þannig að staða grunaðra sé réttarstaða þá senda yfirvöld ekki þau skilaboð til almennings í svona málum að fjölmiðlar eigi á hættu að verða dæmdir fyrir hegningarlagabrot fyrir að segja frá spillingu,“ segir hann.

Ísland er nú í 13.-18 sæti yfir lönd þar sem er minnst spilling og lækkar um eitt sæti frá því árið 2020. Danmörk, Finnland og Nýja-Sjálands skipa efstu þrjú sætin, þar mælist minnst spilling samkvæmt mælingu TI.

-En hvað er spilling? Transparency Internationals skilgreinir spilling sem misbeitingu á opinberu valdi til persónulegs ávinnings. Spilling þrífst þar sem eftirlit skortir, ákvarðanataka er óljós og aðkoma og áhrif almennings eru lítil eða enginn. Spillingu má fyrirbyggja með gagnsæi hvað varðar upplýsingar og gjörðir valdhafa, sem almenningur getur skilið, treyst og fylgst með.