Fyrrverandi þingmenn Flokk fólksins, þeir Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, ætla sér að verða óháðir þingmenn og munu ekki ganga til liðs við Miðflokkinn, en þetta staðfestir Ólafur í samtali við Fréttablaðið. 

Líkt og fram hefur komið voru þingmennirnir reknir úr flokknum í gær vegna ummæla sinna á Klaustur bar í síðustu viku. Karl Gauti kallaði Eygló Harðardóttur meðal annars „galna kerlingarklessu“ við tilefnið og sagði Inga Sæland í gær að málið væri „þvílíkur trúnaðarbrestur“ að ekki væri hægt að horfa fram hjá því.

„Ég get staðfest að ég og Karl Gauti eigum það mikla málefnalega samleið að við ætlum okkur að halda áfram á þingi sem óháðir þingmenn,“ segir Ólafur.

Boðað hefur verið til mótmæla í dag, laugardag, á Austurvelli klukkan 14:00 vegna fregna af ummælum þingmannanna á Klaustur bar í síðustu viku.