Hafnarfjarðarbær hefur orðið af 60 milljónum króna í útsvarstekjur vegna íbúafækkunar undanfarna fjórtán mánuði. Þetta kemur fram í svari til Öddu Maríu Jóhannsdóttur, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar.

Verði íbúafjöldinn óbreyttur á þessu ári eru áhrif útsvarslækkunarinnar 70 milljónir króna, en ef fólksfækkunin verður með sama hætti lækka tekjurnar um 42 milljónir til viðbótar. Hefði íbúafjölgun verið samkvæmt meðaltali mannfjöldaspár Aðalskipulags Hafnarfjarðar hefðu útsvarstekjur hækkað um 239 milljónir árið 2020.

„Það hefur verið óskaplega lítið framboð af húsnæði hérna,“ segir Adda. Hún reiknar með því að stór hluti fækkunarinnar skýrist af því að uppkomin börn flytji úr foreldrahúsum í önnur sveitarfélög. Einnig vilji eldra fólk minnka við sig en finni ekki smærri íbúðir við hæfi. Það sé einsdæmi að fólki fækki í sveitarfélagi á suðvesturhorninu.

Á fundi bæjarráðs á fimmtudag lét meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks bóka að skráður íbúafjöldi gæti tekið talsverðum breytingum milli ára. Þá væri uppbygging í nýjum hverfum að skila sér núna í fjölgun og mætti reikna með sjö þúsund íbúa fjölgun næstu fimm árin.