Meðal helstu forsendna starfsleyfa frá Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlitum sveitarfélaga fyrir íþróttamannvirki og líkamsræktarstöðvar er að gestir skuli hafa greiðan aðgang að bað- og sturtuaðstöðu og fullbúinni snyrtingu.

Í það minnsta tvær líkamsræktarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu opnuðu dyr sínar fyrir viðskiptavinum í gær eftir breyttar sóttvarnaaðgerðir án þess að greiður aðgangur væri að salerni eða sturtuaðstöðu.

Á heimasíðu annarrar stöðvarinnar var gestum tjáð að búningsaðstaða og sturtur yrðu lokaðar frá og með deginum í gær en salernisaðstöðu væri skipt í sóttvarnahólf. Á Facebooksíðu annarrar stöðvar í borginni var greint frá því að opið væri fyrir skipulagða hóptíma en „iðkendur hvattir til að koma tilbúnir á æfingu með vatn í brúsum þar sem búningsklefar, sturtur og salerni eru lokuð“.

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur kemur fram að heilbrigðiseftirlitinu sé „ekki kunnugt um líkamsræktarstöðvar sem ætla að hafa salernis- og búningsaðstöðu lokaða. Skylt er að bjóða upp á slíka aðstöðu.“