„Málþóf á ekkert skylt við málfrelsi, ekki frekar en nauðgun við kynfrelsi,“ segir Helgi Bernódusson, fráfarandi skrifstofustjóri Alþingis, í ræðu sinni á Hátíð Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn í gær. Hann ræðir meðal annars sögu Jónshúss í ræðu sinni og velti fyrir sér framtíð Alþingis og segir málþóf vera eins og draugur sem fer um þinghúsið.

„Jafnframt þarf að auka umræðu í þinginu, lifandi umræðu um mál sem ráðherrar og þingmenn taka almennt þátt í.“

Helgi hefur gegnt starfi skrifstofustjóra frá ársbyrjun 2005 og starfað á Alþingi í fjörutíu ár.

Hátíð Jón Sigurðssonar hefur verið haldin hátíðlega síðan 2008 og er markmið hátíðarinnar að halda minningu Jóns Sigurðssonar á lofti.

„Ég hef grun um að sú hugmynd sé frá þingforseta komin af því tilefni að ég læt af starfi mínu nú í lok ágúst, ég sé hingað kallaður „líkt og í kveðjuskyni“ eins og segir í frægri rímu,“ segir Helgi í ræðu sinni en hann lætur af störfum sem skrifstofustjóri í ágúst.

Jónhús í Kaupmannahöfn.

Erfiðir tímar þegar Alþingi þáði Jónshús

Í ræðunni rekur hann sögu Jónshúss, allt frá búsetu Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur að deginum í dag. Hann segir frá því þegar Carl Sæmundsen gaf Alþingi húsið á áttræðisafmæli sínu í febrúar 1966. Alþingi hafi svarað samdægurs, þáð gjöfina og þakkað veglyndi gjafarans fögrum orðum. Helgi minnist þess að það hafi verið erfiðir tímar á Íslandi þegar Alþingi tók við gjöfinni; síldarleysi, hafís og gengisfall.

Þingið tók lán í Danmörku og gera bót á húsinu sem varð seinna að menningarmiðstöð Íslendinga í Kaupmannahöfn í anda Jóns og Ingibjargar.

Eina málverkið í þingsalnum er af Jón Sigurðssyni.
Ernir Eyjólfsson

Velti fyrir sér framtíð Alþingis

Helgi segir verkefni þingsins að treysta lífskjör fólksins í landinu og takast á við vanda líðandi stundar. Hann segir málþóf vera ósið sem þurfi að afnema sem allra fyrst. Málþóf kallast það þegar þingmaður eða þingmenn reyna að hindra kosningu um frumvarp. Ein leið til þess er að draga umræður um frumvarpið á langinn með ræðuhöldum þangað til flytjendur gefast upp á umræðunum og draga frumvarpið til baka.

„Málþóf á ekkert skylt við málfrelsi, ekki frekar en nauðgun við kynfrelsi.“ segir Helgi í ræðu sinni og bætir við að málþóf hafi stundum verið kallað vopn stjórnarandstöðunnar sem hann segir vera reginmisskilning.

„Jafnvægið mun aðeins finna sér nýtt og heilbrigðara form, ef óhæfa þessi yrði lamin niður með einu bylmingshöggi, bótalaust. En jafnframt þarf að auka umræðu í þinginu, lifandi umræðu um mál sem ráðherrar og þingmenn taka almennt þátt í.“

Vibeke Nørgaard Nielseen hlaut Verðlaun Jóns Sigurðssonar

Vibeke Nørgaard Nielseen hlaut Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta á hátíðinni í Jónshúsi.

„Framlag Vibeke við kynningu á Íslandi og íslenskri menningu í Danmörku með sýningum, kynningum og fyrirlestrum um Ísland um langt árabil er ómetanlegt,“ segir í tilkynningu á vefsíðu Alþingis.

Vibeke Nørgaard Nielsen hlýtur Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2019.