Nútímavæðing Íslands og velsæld Íslendinga, á hverju tímabili í sögunni fyrir sig, byggir fyrst og fremst á samskiptum við útlönd. Þetta segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í viðtali við Sigmund Erni Rúnarsson í Fréttavaktinni á Hringbraut. Fréttavaktin er á dagskrá alla virka daga kl. 18:30.
Þar ræddi hann nýja bók sem hann, ásamt meðhöfundum hans, gáfu út nýverið. Hún ber heitið Iceland's shelterseeking behaviour: From settlement to republic.
Í henni kanna höfundarnir hvort Íslendingar hafi vanmetið mikilvægi alþjóðasamskipta í sögu þjóðarinnar, en bókin nær allt frá landnámsöld til stofnunnar lýðveldisins.
Tortryggni í garð alþjóðasamskipta
„Orðræðan hefur verið dálítið mikið þannig í íslensku samfélagi að alþjóðasamskipti hafi ekki verið af hinu góða – að við séum arðrænd af útlendingunum, tortryggin í garð útlendinganna, það séu „við og þeir,“ það eru „góðir og slæmir.“ En er þetta svo?“ spyr Baldur.
Ljóst er að höfundum bókarinnar þykir svo ekki vera. Líkt og áður segir komust þeir að þeirri niðurstöðu að samskipti Íslands við útlönd stýri nútímavæðingu og velsæld Íslendinga.
Þessum samskiptum skipta þeir í þrennt: Pólitísk samskipti, svo sem hernaðarleg og diplómatísk – Efnahagslegu samskipti, svo sem almenn viðskipti – Samfélagsleg samskipti, svo sem menning og menntun.
„Hagsældin kemur að utan og ef við skoðum þessa samfélagslegu þætti, þá skiptir öllu máli að okkar mati, fyrir lítil samfélög að vera sem mest inni í hringiðu heimsmála á hverjum tíma fyrir sig. Að tryggja það að nýjustu tækni og vísindi berist inn fyrir landsteinana og að nýjust hugmyndastraumar berist inn fyrir landsteinana. Það á alveg jafnt við í dag og fyrir 500 árum eða 1.000 árum,“ segir Baldur.
Þá segir hann að þetta sé enn mikilvægt vegna þess að lítil samfélög á borð við Ísland henti ekki vel upp á nýsköpun og tækniþróun. Til þess þurfi meiri fólksfjölda.
Evrópusambandið samt fjarlægur draumur
Þrátt fyrir allar fögru fullyrðingarnar um mikilvægi alþjóðasamskipta á Evrópusambandið samt sem áður ekki upp á pallborðið hjá Íslendingum: „Það held ég að sé komið til vegna orðræðunnar okkar um hvar valdið liggur,“ segir Baldur. „Okkar saga er sögð þannig, þó að sagnfræðingar við Háskóla Íslands séu að skrifa allt öðruvísi í dag heldur en fyrir nokkrum áratugum síðan, að það snerist allt um það hvar valdið lá,“ heldur hann áfram.
Hann bendir á að í gegnum veigamestu atburði sjálfstæðisbaráttu Íslendinga hafi ávallt verið uppi ákveðin orðræða. Raunar hafi hún lítið sem ekkert breyst og segir Baldur að lítill munur sé á orðræðu andstæðinga þriðja orkupakkans eða andstæðinga inngöngu Íslands í NATO árið 1949. Innihaldið sé það sama.
Baldur segir jafnframt að ákveðins misskilnings gæti í umræðunni: „Við þekkjum ekki aðra orðræðu og hún virkar svo við höldum okkur við hana. Við höldum að við höfum alltaf verið einangruð eyþjóð í gegnum aldirnar, en við höfundar bókarinnar höldum því fram að það sé misskilningur.“