Far­þegi sem inn­ritaður var í nýtt far­sóttar­hús að Foss­hóteli í Borgar­túni í gær­kvöldi bauð Sæ­björn Stein­ke, frétta­ritara Fót­bolta.net vel­kominn til Norður-Kóreu í hæðni vegna nýrrar reglu­gerðar yfir­valda. Lands­liðs­þjálfari segir stemninguna á Kefla­víkur­flug­velli í gær­kvöldi hafa verið skrítna.

Svo ó­heppi­lega vildi til að Sæ­björn fylgdi eftir 21 árs karla­lands­liðsteymi Ís­lands í knatt­spyrnu, sem mætti til landsins í gær­kvöldi á­samt A-lands­liðinu. Yngra lands­liðið þarf að eyða páskunum í far­sóttar­húsi en ekki A-lands­liðið.

Liðin deildu þó sömu flug­vél til landsins en sátu í sitt­hvorum hluta vélarinnar og héldu fjar­lægð. Yngra liðið spilaði á Evrópu­móti í Ung­verja­landi en A-lands­liðið flakkaði á milli Þýska­lands, Armeníu, Sviss og Liechten­stein.

Vissu ekkert og í á­falli við komuna til landsins

Sæ­björn Stein­ke, frétta­ritari Fót­bolta.net, sem fylgdi eftir yngri lands­liðs­hópnum, deilir lífs­reynslunni úr far­sóttar­húsinu með fylgj­endum sínum á Twitter.

„Ég hef það bara mjög fínt, ef ég tala bara fyrir sjálfan mig,“ segir hann léttur í bragði í sam­tali við Frétta­blaðið. Einn far­þega í far­sóttar­húsinu líkti á­standi mála við N-Kóreu. Sá hafi beðið um að sjá sótt­varnar­reglur á prenti, en það var ekki í boði.

„Hann bað um það, að fá þær sjá út­prentaðar, en þær voru víst ekki til. Hvort það var til­viljun eða hvað, þekki ég ekki,“ segir hann. Hann segist skilja pirringinn hjá þeim sem hafi bókað ferðir sínar með lengri fyrir­vara.

Sæ­björn deilir reynslu sinni einnig í pistli á Fót­bolta.net. Þar lýsir hann því að mótt­tökur á Kefla­víkur­flug­velli hafi komið lands­liðs­hópnum spánskt fyrir sjónir.

„Eftir að far­angurinn var sóttur voru tvær út­göngu­leiðir. Eldri hópurinn fór aðra leiðina og yngri hópurinn; fimm leik­menn, starfs­lið og fjöl­miðla­menn fóru hina.

Á milli var girðing og ofan á gadda­vír, girðingin var ekki löng og ekki eins og það hefði verið flókið að fara fram­hjá henni eða undir reipið sem tók við af girðingunni. Skemmti­legur leik­þáttur, og góður. Eldri hópurinn fór heim til sín í fimm daga sótt­kví en þar sem Ung­verja­land er skil­greint sem dökk­rautt svæði fór yngri hópurinn í far­sóttar­hús, Foss­hótel við Þórunnar­tún,“ skrifar Sæ­björn.

Við komuna hafi hópnum verið til­kynnt að leyfi­legt væri að fara í einn hálf­tíma göngu­túr á dag en bannað að hitta aðra gesti hússins. Þá skal láta vita í mót­töku áður en farið sé í göngu­túr svo ekki séu of margir í mót­tökunni.

Sæ­björn deildi í gær færslu með mynd af mál­tíð í far­sóttar­húsinu. Þar eru þrjár mál­tíðir á dag í boði fyrir gesti. Hann deilir því í pistli sínum að honum hafi þá borist einka­skila­boð frá öðrum gestum hússins.

„Sæll Sæ­björn, ** heiti ég, fangi í 1****. Takk fyrir að fjalla um þetta hvernig þetta er hjá okkur. Vissi ekki fyrir­fram að ég fengi ekki að yfir­gefa her­bergið í 5 daga og er í á­falli við að koma til landsins," sagði í skila­boðunum.

„Ég er að tala við vini mína sem eru lög­fræðingar og hafa sam­band við for­mann lög­fr. sam­bands ís­lands um réttindi mín," fylgdi í kjöl­farið.

Önnur skila­boð hljóðuðu svona:

„Við verðum að gera eitt­hvað í þessu, ég talaði við lög­fræðinga og þeir segja þetta al­gjör­lega ó­lög­legt. Ég reyndi að ná sam­bandi við um­boðs­mann Al­þingis í dag en það lítur út fyrir að vera páska­frí.

„Ég veit ekki hvernig þetta var með þig en ég fékk ekki leyfi að fara í göngu­túr í gær. Ég pantaði mat en mót­takan klikkaði eitt­hvað og maturinn fór á annað her­bergi."

Undir­ritaður sagði þá að hann hafi fengið leyfi til að fara út í hálf­tíma.

„Já, ég bað um að fara klukkan 22 en þá var út­göngu­bann eftir þann tíma. Ég bað um að fá að sjá reglurnar á blaði en þá var ekkert til staðar skrifað. 'Í rauninni bara fólk í mót­tökunni að segja mér eitt­hvað sem það dreymdi daginn áður'. Ég mun tala við fjöl­miðla í dag, vel­kominn til Norður-Kóreu."

Önnur skila­boðin voru frá Ís­lendingi og hin frá ís­lenskum ríkis­borgara.

Skrítin stemning á vellinum þegar landsliðin mættu

Gremja virðist vera í hópi yngra lands­liðsins með þessa til­högun en Jörundur Áki Sveins­son, þjálfari í hópnum, lét gremju sína í ljós í Twitter færslu í gærkvöldi. „Eftir 8 skimanir og ein­angrun í Ung­verja­landi þá bíður okkar dvöl í sótt­varnar­húsi fram á þriðju­dag í næstu viku...alveg eðli­legt bara,“ skrifar Jörundur og lætur fylgja með löngu­töng.

Þegar Frétta­blaðið heyrði í Jörundi í dag var tölu­vert léttara yfir honum. Hann segir að ó­vissan við komuna til landsins í gær, kindarleg gaddavírsgirðing og við­tökurnar hafi gert stemninguna á flug­vellinum skrítna. Twitter færslan hafi verið létt grín. „Það er alltaf bjart yfir mér,“ segir hann aðspurður, léttur í bragði um vistina í dag á farsóttarhúsinu.

„Við erum náttúru­lega búnir að vera á hóteli í tólf daga í Ung­verja­landi. En hér er vel hugsað um okkur, starfs­fólkið hefur verið yndis­legt og við fáum að fara út í á­kveðinn tíma,“ segir Jörundur. Nú bíði hópurinn eftir niður­stöðum úr sinni níundu skimun.

Færsla Jörundar frá því í gærkvöldi hefur vakið mikla athygli:

Að­spurður segir Jörundur þó að við­tökurnar á Kefla­víkur­flug­velli og skyldu­sótt­kvíin hafi komið á ó­vart. Hópurinn skilji þó al­var­leika málsins og sjálf­sagt að fylgja fyrir­mælum yfir­valda.

„En okkur fannst svona smá skrítin stemning að mæta þarna og vera settir út í rútu sem var svona annars flokks. Við vissum heldur ekki al­menni­lega hvað við værum að fara út í. Hvort við fengum að fara út og svo­leiðis,“ segir Jörundur.

Um­rædd girðing á flug­vellinum hafi heldur ekki gert mikið fyrir móralinn í hópnum, né heldur biðin eftir rútu á Kefla­víkur­flug­velli. Það sé hins­vegar knappt að þurfa að eyða lengri tíma í skyldu­sótt­kví eftir langan tíma í ein­angrun.

„En við þurfum að standa saman í þessu og hlýta þessu. En auð­vitað finnst okkur að­eins verið að brjóta á okkur. Okkur sem erum búnir að vera í ein­angrun allan þennan tíma og komum í einka­vél frá Ung­verja­landi og búnir að fara í átta skimanir. En ef þetta er það sem stjórn­völd telja rétt þurfum við að hlýta því.“

Lög­fræðingar efast um lög­mætið

Þeir lög­fræðingar sem Frétta­blaðið hefur rætt við, lýsa veru­legum efa­semdum um lög­mæti þessara að­gerða og vísa til nýrra sótt­varna­laga sem sam­þykkt voru í febrúar síðast­liðnum.

Í 1. gr. þeirra er sótt­varna­hús skil­greint sem „staður þar sem ein­stak­lingur, sem ekki á sama­stað á Ís­landi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki ein­angra sig í hús­næði á eigin vegum, getur verið í sótt­kví eða ein­angrun vegna gruns um að hann sé smitaður af far­sótt eða ef stað­fest er að svo sé.“

Ofan­greind skil­greining var ekki í frum­varpi heil­brigðis­ráð­herra heldur kom hún inn í lögin í með­förum Al­þingis. Af því má á­lykta að Al­þingi lýti svo á að ekki megi skikka Ís­lendinga í sótt­varna­hús nema þeir séu í fyrsta lagi annað hvort smitaðir eða grunur leiki á um smit og í öðru lagi að þeir neiti að fara í sóttkví, hafi brotið gegn á­kvörðun um sóttkví, eða hafi ekki í önnur hús að venda.

Í 14. gr. laganna er kveðið á um að­gerðir sem sótt­varna­lækni eru heimilar til að fyrir­byggja eða hefta út­breiðslu smits. Þær eiga við eftir að sótt­varna­lækni berst til­kynning um að ein­stak­lingur sé haldinn smit­sjúk­dómi að grunur leiki á að til­tekinn ein­stak­lingur sé haldinn smit­sjúk­dómi.

Í á­kvæðinu er fjallað um skil­yrði fyrir á­kvörðun sem felur í sér sviptingu frelsis, svo sem ein­angrun eða sótt­kví. Í slíkri á­kvörðun skal koma skýrt fram hvaða dag og klukkan hvað hún fellur niður. Hafi ein­stak­lingur fallist á sam­starf um að fylgja reglum um ein­angrun eða sótt­kví, en í ljós kemur að hann hefur ekki fylgt þeim, getur sótt­varna­læknir á­kveðið að hann skuli settur í sótt­kví eða ein­angrun á sjúkra­húsi eða í sótt­varna­húsi eða gripið til annarra við­eig­andi að­gerða.

Lögin virðast af framan­greindu ein­göngu heimila að fólk sé vistað í sótt­varnar­húsi án eigin sam­þykkis, ef það er smitað eða grunur leikur á um að það sé smitað og ef það á ekki önnur hús að vernda eða virðir ekki skil­yrði um ein­angrun eða sótt­kví á heimili sínu eða sama­stað.

Þeir lögfræðingar sem Fréttablaðið ræddi við, lýsa, með vísan til framangreinds, verulegum efasemdum um að hið nýja reglugerðarákvæði heilbrigðisráðherra um dvöl í sóttvarnahúsi, samræmist sóttvarnalögum eins og þeim hefur verið breytt.