Farþegi sem innritaður var í nýtt farsóttarhús að Fosshóteli í Borgartúni í gærkvöldi bauð Sæbjörn Steinke, fréttaritara Fótbolta.net velkominn til Norður-Kóreu í hæðni vegna nýrrar reglugerðar yfirvalda. Landsliðsþjálfari segir stemninguna á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi hafa verið skrítna.
Svo óheppilega vildi til að Sæbjörn fylgdi eftir 21 árs karlalandsliðsteymi Íslands í knattspyrnu, sem mætti til landsins í gærkvöldi ásamt A-landsliðinu. Yngra landsliðið þarf að eyða páskunum í farsóttarhúsi en ekki A-landsliðið.
Liðin deildu þó sömu flugvél til landsins en sátu í sitthvorum hluta vélarinnar og héldu fjarlægð. Yngra liðið spilaði á Evrópumóti í Ungverjalandi en A-landsliðið flakkaði á milli Þýskalands, Armeníu, Sviss og Liechtenstein.
Vissu ekkert og í áfalli við komuna til landsins
Sæbjörn Steinke, fréttaritari Fótbolta.net, sem fylgdi eftir yngri landsliðshópnum, deilir lífsreynslunni úr farsóttarhúsinu með fylgjendum sínum á Twitter.
„Ég hef það bara mjög fínt, ef ég tala bara fyrir sjálfan mig,“ segir hann léttur í bragði í samtali við Fréttablaðið. Einn farþega í farsóttarhúsinu líkti ástandi mála við N-Kóreu. Sá hafi beðið um að sjá sóttvarnarreglur á prenti, en það var ekki í boði.
„Hann bað um það, að fá þær sjá útprentaðar, en þær voru víst ekki til. Hvort það var tilviljun eða hvað, þekki ég ekki,“ segir hann. Hann segist skilja pirringinn hjá þeim sem hafi bókað ferðir sínar með lengri fyrirvara.
Svo mikið key að bjóða upp á rifinn ost og lax saman í máltíð pic.twitter.com/JY2R45TqW4
— Sæbjörn Steinke (@saebjornth) April 1, 2021
Sæbjörn deilir reynslu sinni einnig í pistli á Fótbolta.net. Þar lýsir hann því að mótttökur á Keflavíkurflugvelli hafi komið landsliðshópnum spánskt fyrir sjónir.
„Eftir að farangurinn var sóttur voru tvær útgönguleiðir. Eldri hópurinn fór aðra leiðina og yngri hópurinn; fimm leikmenn, starfslið og fjölmiðlamenn fóru hina.
Á milli var girðing og ofan á gaddavír, girðingin var ekki löng og ekki eins og það hefði verið flókið að fara framhjá henni eða undir reipið sem tók við af girðingunni. Skemmtilegur leikþáttur, og góður. Eldri hópurinn fór heim til sín í fimm daga sóttkví en þar sem Ungverjaland er skilgreint sem dökkrautt svæði fór yngri hópurinn í farsóttarhús, Fosshótel við Þórunnartún,“ skrifar Sæbjörn.
Við komuna hafi hópnum verið tilkynnt að leyfilegt væri að fara í einn hálftíma göngutúr á dag en bannað að hitta aðra gesti hússins. Þá skal láta vita í móttöku áður en farið sé í göngutúr svo ekki séu of margir í móttökunni.
Sæbjörn deildi í gær færslu með mynd af máltíð í farsóttarhúsinu. Þar eru þrjár máltíðir á dag í boði fyrir gesti. Hann deilir því í pistli sínum að honum hafi þá borist einkaskilaboð frá öðrum gestum hússins.
„Sæll Sæbjörn, ** heiti ég, fangi í 1****. Takk fyrir að fjalla um þetta hvernig þetta er hjá okkur. Vissi ekki fyrirfram að ég fengi ekki að yfirgefa herbergið í 5 daga og er í áfalli við að koma til landsins," sagði í skilaboðunum.
„Ég er að tala við vini mína sem eru lögfræðingar og hafa samband við formann lögfr. sambands íslands um réttindi mín," fylgdi í kjölfarið.
Önnur skilaboð hljóðuðu svona:
„Við verðum að gera eitthvað í þessu, ég talaði við lögfræðinga og þeir segja þetta algjörlega ólöglegt. Ég reyndi að ná sambandi við umboðsmann Alþingis í dag en það lítur út fyrir að vera páskafrí.
„Ég veit ekki hvernig þetta var með þig en ég fékk ekki leyfi að fara í göngutúr í gær. Ég pantaði mat en móttakan klikkaði eitthvað og maturinn fór á annað herbergi."
Undirritaður sagði þá að hann hafi fengið leyfi til að fara út í hálftíma.
„Já, ég bað um að fara klukkan 22 en þá var útgöngubann eftir þann tíma. Ég bað um að fá að sjá reglurnar á blaði en þá var ekkert til staðar skrifað. 'Í rauninni bara fólk í móttökunni að segja mér eitthvað sem það dreymdi daginn áður'. Ég mun tala við fjölmiðla í dag, velkominn til Norður-Kóreu."
Önnur skilaboðin voru frá Íslendingi og hin frá íslenskum ríkisborgara.
Skrítin stemning á vellinum þegar landsliðin mættu
Gremja virðist vera í hópi yngra landsliðsins með þessa tilhögun en Jörundur Áki Sveinsson, þjálfari í hópnum, lét gremju sína í ljós í Twitter færslu í gærkvöldi. „Eftir 8 skimanir og einangrun í Ungverjalandi þá bíður okkar dvöl í sóttvarnarhúsi fram á þriðjudag í næstu viku...alveg eðlilegt bara,“ skrifar Jörundur og lætur fylgja með löngutöng.
Þegar Fréttablaðið heyrði í Jörundi í dag var töluvert léttara yfir honum. Hann segir að óvissan við komuna til landsins í gær, kindarleg gaddavírsgirðing og viðtökurnar hafi gert stemninguna á flugvellinum skrítna. Twitter færslan hafi verið létt grín. „Það er alltaf bjart yfir mér,“ segir hann aðspurður, léttur í bragði um vistina í dag á farsóttarhúsinu.
„Við erum náttúrulega búnir að vera á hóteli í tólf daga í Ungverjalandi. En hér er vel hugsað um okkur, starfsfólkið hefur verið yndislegt og við fáum að fara út í ákveðinn tíma,“ segir Jörundur. Nú bíði hópurinn eftir niðurstöðum úr sinni níundu skimun.
Færsla Jörundar frá því í gærkvöldi hefur vakið mikla athygli:
Eftir 8 skimanir og einangrun í Ungverjalandi þá bíður okkar dvöl í sóttvarnarhúsi fram á þriðjudag í næstu viku...alveg eðlilegt bara🖕🏻 pic.twitter.com/PfK5OrG63w
— Jörundur Áki (@jorunduraki) April 1, 2021
Aðspurður segir Jörundur þó að viðtökurnar á Keflavíkurflugvelli og skyldusóttkvíin hafi komið á óvart. Hópurinn skilji þó alvarleika málsins og sjálfsagt að fylgja fyrirmælum yfirvalda.
„En okkur fannst svona smá skrítin stemning að mæta þarna og vera settir út í rútu sem var svona annars flokks. Við vissum heldur ekki almennilega hvað við værum að fara út í. Hvort við fengum að fara út og svoleiðis,“ segir Jörundur.
Umrædd girðing á flugvellinum hafi heldur ekki gert mikið fyrir móralinn í hópnum, né heldur biðin eftir rútu á Keflavíkurflugvelli. Það sé hinsvegar knappt að þurfa að eyða lengri tíma í skyldusóttkví eftir langan tíma í einangrun.
„En við þurfum að standa saman í þessu og hlýta þessu. En auðvitað finnst okkur aðeins verið að brjóta á okkur. Okkur sem erum búnir að vera í einangrun allan þennan tíma og komum í einkavél frá Ungverjalandi og búnir að fara í átta skimanir. En ef þetta er það sem stjórnvöld telja rétt þurfum við að hlýta því.“
Lögfræðingar efast um lögmætið
Þeir lögfræðingar sem Fréttablaðið hefur rætt við, lýsa verulegum efasemdum um lögmæti þessara aðgerða og vísa til nýrra sóttvarnalaga sem samþykkt voru í febrúar síðastliðnum.
Í 1. gr. þeirra er sóttvarnahús skilgreint sem „staður þar sem einstaklingur, sem ekki á samastað á Íslandi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun vegna gruns um að hann sé smitaður af farsótt eða ef staðfest er að svo sé.“
Ofangreind skilgreining var ekki í frumvarpi heilbrigðisráðherra heldur kom hún inn í lögin í meðförum Alþingis. Af því má álykta að Alþingi lýti svo á að ekki megi skikka Íslendinga í sóttvarnahús nema þeir séu í fyrsta lagi annað hvort smitaðir eða grunur leiki á um smit og í öðru lagi að þeir neiti að fara í sóttkví, hafi brotið gegn ákvörðun um sóttkví, eða hafi ekki í önnur hús að venda.
Í 14. gr. laganna er kveðið á um aðgerðir sem sóttvarnalækni eru heimilar til að fyrirbyggja eða hefta útbreiðslu smits. Þær eiga við eftir að sóttvarnalækni berst tilkynning um að einstaklingur sé haldinn smitsjúkdómi að grunur leiki á að tiltekinn einstaklingur sé haldinn smitsjúkdómi.
Í ákvæðinu er fjallað um skilyrði fyrir ákvörðun sem felur í sér sviptingu frelsis, svo sem einangrun eða sóttkví. Í slíkri ákvörðun skal koma skýrt fram hvaða dag og klukkan hvað hún fellur niður. Hafi einstaklingur fallist á samstarf um að fylgja reglum um einangrun eða sóttkví, en í ljós kemur að hann hefur ekki fylgt þeim, getur sóttvarnalæknir ákveðið að hann skuli settur í sóttkví eða einangrun á sjúkrahúsi eða í sóttvarnahúsi eða gripið til annarra viðeigandi aðgerða.
Lögin virðast af framangreindu eingöngu heimila að fólk sé vistað í sóttvarnarhúsi án eigin samþykkis, ef það er smitað eða grunur leikur á um að það sé smitað og ef það á ekki önnur hús að vernda eða virðir ekki skilyrði um einangrun eða sóttkví á heimili sínu eða samastað.
Þeir lögfræðingar sem Fréttablaðið ræddi við, lýsa, með vísan til framangreinds, verulegum efasemdum um að hið nýja reglugerðarákvæði heilbrigðisráðherra um dvöl í sóttvarnahúsi, samræmist sóttvarnalögum eins og þeim hefur verið breytt.