Val á kvið­dóm­endum í málinu gegn Derek Chau­vin, lög­reglu­manninum sem varð Geor­ge Floyd að bana í fyrra, fer fram í dag í Minnea­polis en gert er ráð fyrir að valið muni standa yfir í um það bil þrjár vikur. Talið er að mál­flutningur í málinu hefjist eigi síðar en 29. mars og standi yfir í þrjár til fjórar vikur.

Chau­vin var vikið úr starfi skömmu eftir dauða Floyd og hann hand­tekinn en hann var síðar látinn laus gegn tryggingu. Hann var síðan á­kærður fyrir annars stigs morð og mann­dráp síðast­liðinn októ­ber en hann hefur neitað sök í málinu.

Mál Floyd vakti gífur­lega at­hygli um allan heim en mynd­band af Chau­vin krjúpa á hálsi Floyd í um átta mínútur fór sem eldur í sinu skömmu eftir and­lát Floyd þann 25. maí 2020. Á mynd­bandinu heyrðist Floyd í­trekað segja að hann gæti ekki andað en hann hafði verið hand­tekinn vegna skjala­fals stuttu áður.+

Gæti reynst erfitt að finna kviðdómara

Í ljósi þess hversu margir hafa heyrt af máli Floyd gæti það reynst erfitt að finna ó­hlut­dræga kvið­dómara en mark­miðið er að finna ein­stak­linga sem geta tekið mark á sönnunar­gögnum málsins og komist að niður­stöðu út frá lögum.

Að því er kemur fram í frétt CNN hefur undir­búningur fyrir val á kvið­dómurum staðið yfir í nokkurn tíma en síðast­liðinn desember fengu mögu­legir kvið­dómarar sendan 16 blað­síðna spurninga­lista þar sem þeir voru meðal annars spurðir út í Black Lives Matter mót­mælin í kjöl­far dauða Floyd, við­horf þeirra í garð lög­reglu, og per­sónu­lega reynslu af sam­skiptum við lög­reglu.

Í dag munu síðan mögu­legir kvið­dómarar mæta fyrir réttinn til að svara spurningum til að leiða í ljós hæfni þeirra til að starfa sem kvið­dómandi. Dómarinn, sak­sóknari og verjandi munu allir geta spurt spurninga í gegnum ferlið og vísað ein­stak­lingum frá sem talið er að geti ekki verið hlut­drægir.

Mikill viðbúnaður er nú við dómsalinn vegna málsins.