Aðeins 10 prósent kvikmyndahúsagesta völdu að fara á íslenska bíómynd á síðasta ári. Þetta er langlægsta hlutfall á Norðurlöndunum. Danir eru duglegastir að sjá eigin kvikmyndir, 30 prósent, og Finnar eru ekki langt á eftir með 27 prósent. Í Noregi og Svíþjóð er hlutfallið í kringum 20 prósentin.
Aðeins ein íslensk kvikmynd komst á lista yfir þær 10 aðsóknarmestu, Allra síðasta veiðiferðin. Teiknimyndin Minions: The Rise of Gru fékk mesta aðsókn. Þar á eftir komu Elvis, The Batman, Avatar: The Way of Water og Thor: Love and Thunder. Kvikmyndirnar Abbabbabb, Svar við bréfi Helgu og Berdreymi komust ekki á topp 10 listann.
Tekjur kvikmyndahúsanna voru tæpir 1,3 milljarðar króna sem er aukning um 18 prósent frá árinu áður. Aðsókn jókst um rúm 10 prósent en er enn þriðjungi minni en fyrir Covid-19 faraldurinn.