Í júlí árið 2015 hringdi Ragn­hildur Kristjáns­dóttir, eða Raggý eins og hún er alltaf kölluð, á bráða­mót­tökuna eftir að fimm ára strákurinn hennar, Ægir Freyr Ægis­son, sagði henni að hann hefði gleypt pening. Síðar komst hún að því að hann hafði ekki gleypt pening, heldur rafhlöðu, en hann er í dag heppinn að vera á lífi.

„Hann var svo rosa­lega hvat­vís. Það var enginn stopptakki og það sem gerðist er að hann stingur batterínu upp í sig því honum þótti straumurinn af því svo þægi­legur. En svo hrökk það ofan í hann,“ segir Raggý en á þessum tíma hafði Ægir Freyr ekki fengið greiningu en í dag hefur hann verið greindur með ein­hverfu og ADHD og er á lyfjum sem hamla slíkri hvatvísi.

Þegar raf­hlaðan hrökk ofan í hann var hann í pössun þannig hún var ekki sjálf með honum og heyrði ekki af þessu strax.

„Þegar hann kemur heim segist hann hafa gleypt pening,“ segir Raggý og að hún hafi þá strax hringt á slysa­deild bráða­mót­tökunnar og þar hafi henni sagt að hafa ekki of miklar á­hyggjur, peningurinn myndi skila sér á endanum.

„Þetta var klukkan 16 og ég hringi aftur klukku­tíma seinna því það var aug­ljós­lega eitt­hvað að drengnum,“ segir Raggý og aftur hafi henni verið sagt að hafa ekki á­hyggjur en að ef hún vildi endi­lega tala við ein­hvern þá gæti hún prófað Barna­spítalann.

„Ég talaði þá við frænku hans, sem var með honum á þessum tíma sem sagði mér að hann gleypti pening sem er samt ekki með fiskum á. Þá fattaði ég að þetta hlyti að hafa verið batteríið sem ég var með.“

Skráð sem veikindi en ekki slys

Greint var frá því fyrr í vikunni að ekkert slíkt slys hefði orðið hér á landi í um tuttugu ár en það er því ekki rétt. Her­dís Storga­ard, sér­fræðingur í slysa­vörnum og hjúkrunar­fræðingur, telur að það sé vegna þess að at­vik sem eiga sér stað á Barna­spítalanum eru ekki skráð sem slys, heldur veikindi, og því ekki skráð í slysa­skrá Ís­lands hjá land­lækni.

Raggý segir að henni hafi brugðið mjög að sjá fréttina og hafi þess vegna viljað segja frá þeirra máli. Hún segist oft hafa varað við þessu í ein­hverfu­spjalli því mörgum þeirra finnist svona hlutir oft spennandi og rafstraumurinn þægi­legur.

„Hann er að verða 13 ára í dag og fyrst núna eigum við græju sem er með hnapparaf­hlöðu,“ segir hún.

Raggý segir að eftir að hún talaði við frænku hans og komst að því að um væri að ræða rafhlöðu en ekki pening hafi hún strax hringt á Barna­spítalann með þessar nýju upp­lýsingar en verið tjáð þar að hún þyrfti ekki að hafa á­hyggjur.

Hún á­kvað samt að fara með hann upp á spítalann þar sem þau bíða í tvær klukku­stundir eftir því að komast í mynda­töku og þegar myndin loks birtist þá er hún kölluð inn í her­bergi.

„Henni bregður svo því það sést á myndinni að batteríið er fast í vélindanu,“ segir Raggý og að það þurfi ekki meira en að gúgla sig á­fram til að sjá að um mjög al­gengt slys er að ræða. Hér að neðan má sjá slíka mynd.

Á myndinni má sjá hnapparafhlöðu í vélinda barns. Alveg eins og kom fyrir Ægi Frey.
Fréttablaðið/Getty

Langur bati fram undan

Hún segir að á­kveðið hafi verið að fjar­lægja batteríið um kvöldið en að hún hafi ekki skynjað á þessum tíma neitt stress í læknunum. Henni hafi verið sagt að að­gerðin tæki stutta stund og að þau yrðu komin aftur heim sama kvöld, lík­lega um klukkan 23.

„En svo er klukkan orðin hálf tólf og enginn búin að hringja. Svo fæ ég loks sím­tal þar sem ég er beðin um að koma en áður en ég fer til hans eigi ég að hitta þau inn í ein­hverju her­bergi á gjör­gæslu.“

Þar hitti Raggý bæði lækna og hjúkrunar­fræðinga sem sögðu henni að í að­gerðinni hefði komið í ljós að 2/3 af vélindanu höfðu brunnið.

„Á­standið á honum þarna var þannig að hann þurfti að vera á gjör­gæslu og í súr­efnis­mettun og okkur var sagt að hann yrði í nokkrar vikur eða jafn­vel mánuði að jafna sig. Það væri langur bati fram undan.“

Raggý segir að hún hafi svo komist að því að í að­gerðinni þurfti læknarnir að hafa sam­band við aðra lækna til að leita sér upp­lýsinga um hvernig ætti að bregðast við því þau hafi ekki verið með neinar leið­beiningar eða vitað hvernig ætti að bregðast við til að ná batteríinu úr því það sendi á sama tíma frá sér raf­straum.

Ægir Freyr með rafhlöðuna sem var föst í vélinda hans.
Fréttablaðið/Valli

Undir eftirliti í fimm ár

Hún fékk að fara heim með Ægi Frey eftir fimm daga en allan þann tíma hafði hann verið með næringu í æð.

Eftir þetta þurfti alltaf að gæta sér­stak­lega að honum þegar hann fékk gubbu­pest eða eitt­hvað slíkt og láta vita. Svo árið 2018 fór hann í aðra að­gerð sem var hugsuð til að laga skemmdirnar.

„En það trúði því enginn en þá voru engin eftir­köst,“ segir Raggý og að læknar eigi enn í dag bágt með að trúa því að það sjáist ekki neitt á drengnum inn­vortis.

Ef ég hefði ekki farið með hann þá eru mjög litlar líkur á því að hann hefði lifað af. Vélindað hefði að öllum líkindum farið alveg í sundur um nóttina

Raggý segir að eftir þetta hafi Ægir Freyr lést um alls átta kíló og að hann hafi þurft að vera í eftir­liti vegna þyngdar sinnar í fimm ár. Fyrst hjá Land­spítalanum og svo hjá heilsu­gæslunni.

„Ef ég hefði ekki farið með hann þá eru mjög litlar líkur á því að hann hefði lifað af. Vélindað hefði að öllum líkindum farið alveg í sundur um nóttina.“

Raggý segir að verk­ferlar á spítalanum hafi verið skoðaðir eftir þetta at­vik því það hafi verið alveg ljóst að það átti ekki að vísa henni í burtu frá slysa­deild.

„Slysa­deildin átti að taka við honum og setja hann beint í röntgen.“

Kitlaði í munninn

Ægir Freyr er í dag þrettán ára gamall en segist vel muna eftir því að borða raf­hlöðuna. Hann segist hafa verið að leika við frænku sína sem hafi endað með því að hann setti raf­hlöðuna upp í munninn.

„Hún kitlaði svo í munninn að ég byrjaði að hlæja og þá fór það inn í munninn. Ég fríkaði smá út því ég gat ekki alveg andað og hljóp til bróður míns og sagði honum,“ segir Ægir Freyr og að þeir hafi á­kveðið að bíða eftir mömmu þeirra.

Honum þyki mikil­vægt að það sé skrifað um þetta svo að það sé hægt að koma í veg fyrir að önnur börn geri það sama og svo fólk viti hversu hættu­legt það er ef þau gera það.

„Ég man mjög vel eftir þessu og að það voru allir að fríka út en ég vissi ekkert hvað var að gerast,“ segir Ægir Freyr og að það hefði verið betra ef að það hefði verið út­skýrt fyrir honum hvað væri að gerast.

Krakkar þurfa að fara var­lega með lífið sitt því maður á bara eitt líf og maður ætti ekki að leika sér með svona

Ægir Freyr segir að bæði hafi það verið erfitt fyrstu dagana því þá var hann með næringu í æð en líka eftir á þegar það þurfti alltaf að passa extra vel upp á hann þegar hann veiktist.

En finnurðu fyrir þessu í dag?

„Nei ég er alveg búinn að jafna mig,“ segir Ægir og að hann hugsi ekki mikið um þetta í dag en að hann segi stundum frá þessu svo að fólk viti af því og geti stoppað önnur börn í að gera það sama.

„Ég vona að litlir krakkar kannski sjái þetta og viti að þau eigi ekki að borða þetta. Krakkar þurfa að fara var­lega með lífið sitt því maður á bara eitt líf og maður ætti ekki að leika sér með svona,“ segir hann að lokum.