Farþegaþotan sem hrapaði skömmu eftir flugtak í borignni Jakarta í Indónesíu í nótt var glæný vél af gerðinni Boeing 737 MAX 8. Það er vél sömu gerðar og nýjar vélar Icelandair. 188 manns voru um borð í vélinni en þeir eru allir taldir af.

Sjá einnig: 188 saknað eftir flugslys

Icelandair greindi frá því í vor að félagið hafi fest kaup á sextán Boeing 737 Max 8 og Max 9. Fyrsta vélin, Max 8, var tekin í notkun í apríl. Icelandair var á meðal fyrstu flugfélaganna til að taka vélina í notkun. Nú eru þrjár slíkar vélar í notkun. 

„Boeing 737 MAX vélin brennir 37% minna eldsneyti og hljóðmengunin minnkar um heil 40% sé hún borin saman við forvera sína, Boeing 757-200 vélarnar sem eru í meirihluta í flota Icelandair. Þá notar hún 14% minna en Boeing 737 NG vélin. Þrátt fyrir þetta eru vélarnar mun öflugri en áður,“ segir um vélina á vefsíðu Icelandair. 

Framkvæmdastjóri Lion Air, flugfélagsins sem átti vélina sem fórst, hefur látið hafa eftir sér að tæknilegt vandamál hafi komið upp í vélinni í síðustu flugferð áður en vélin hrapaði, en segir að tekist hafi að vinna bug á því vandamáli. Ekkert hefur komið fram um hvað nákvæmlega grandaði vélinni en vélarbilun hefur verið nefnd.

Ekki hefur náðst í upplýsingafulltrúa Icelandair í morgun, og því ekki ljóst hvort Icelandair mun bregðast við slysinu með einhverjum hætti.

Fram kemur í frétt BBC að 743-vélarnar hafi selst ákaflega hratt. Þannig hafi næstum 4.700 eintök þegar verið seld. Á meðal kaupenda eru meðal annarra Icelandair, American Airlines, United Airlines, Norwegian og FlyDuabai.