Í kjölfar frétta af bágri fjárhagsstöðu Samtakanna 78 tók ónefndur velgjörðamaður sig til og greiddi upp allan útistandandi yfirdrátt Samtakanna með rausnarlegu framlagi upp á fimm milljónir króna.

„Við erum algerlega orðlaus yfir þessari rausnarlegu gjöf,“ segir Bjarndís Helga Tómasdóttir, varaformaður Samtakanna ´78, um gjöfina sem barst samtökunum í vikunni.

Spurð hvernig þetta kom til segir hún að velgjörðamaðurinn hafi einfaldlega hringt á skrifstofu samtakanna og sagt að honum blöskraði að samtökin þyrftu að greiða af yfirdrætti.

„Hann sagði það ekki boðlegt og lagði inn fyrir yfirdrættinum,“ segir Bjarndís Helga og að um hafi verið að ræða fimm milljónir.

Þetta hlýtur að auðvelda reksturinn?

„Já, svo sannarlega. Eins og fram hefur komið í fréttum undanfarið hefur reksturinn vaxið gríðarlega undanfarin sex ár. Við vísum aldrei neinum frá okkur og sinnum mjög fjölbreyttri þjónustu þannig að við þurftum því miður að bregða til þess ráðs að taka yfirdrátt til að geta treyst á þá þjónustu sem við bjóðum upp á. En þetta er dálítið eins og vera í bíómynd, við erum svo ofsalega hissa og þakklát,“ segir Bjarndís að lokum. 

Mikill vöxtur síðustu sex ár

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins gaf maðurinn þá skýringu á styrknum að honum hafi fundist óviðunandi að ekki væri hægt að halda úti mikilvægri þjónustu og fræðslu samtakanna vegna skorts á fjárhagslegum stuðningi. Hann hafi því viljað gera eitthvað í málinu.

Starfsemi Samtakanna hefur vaxið um sjö hundruð prósent að umfangi á síðustu árum. Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri, sagði við Vísi í vikunni að biðtími eftir ráðgjöf hjá Samtökunum hafi lengst um margar vikur vegna fjárhagsstöðunnar. Stjórnendur hafa því gripið til þess ráðs að reka samtökin á yfirdráttarláni undanfarna mánuði.

Mikill munur er á stuðningi hins opinbera við samtök hinsegin fólks hér á landi og í sambærilegum löndum. Þannig fá Samtökin 78 um fimmtán milljónir í varanlegum fjárframlögum á ári til að sinna ráðgjöf og fræðslu á meðan systursamtökin í Noregi fá 350 milljónir úr sameiginlegum sjóðum.

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu fengu samtökin rúmar 40 milljónir í fyrra, þar af um 24 milljónir frá Alþingi. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í viðtali við Vísi fyrr í vikunni að hún ætlaði að beita sér fyrir því að stærri hluti framlagsins yrði varanlegur.

Fréttin hefur verið uppfærð.