Velferðarvaktin leggur meðal annars til að „unnið verði að því að sporna gegn félagslegri einangrun og einmanaleika aldraðra sem orðið hefur vegna COVID-19“. Tillögur Velferðarvaktarinnar voru birtar á vef Stjórnarráðsins í gær.

Um er að ræða fjórtán tillögur til bæði ríkis og sveitarfélaga, sem ætlað er að vera leiðarljós fyrir stjórnvöld á tímum kórónaveirufaraldursins. Siv Friðleifsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar, segir í samtali við Fréttablaðið að tekið hafi verið tillit til ýmissa þessara tillagna og ábendinga sem Velferðarvaktin lagði til fyrr í faraldrinum en hún búist við því að grípa þurfi til frekari úrræða. „Tillögurnar eru leiðarljós í þeirri vinnu,“ segir Siv.

Tillögurnar fela meðal annars í sér að hámarksgreiðslur barnabóta til einstæðra foreldra og tekjulágra hópa verði hækkaðar, að hagur öryrkja og barna þeirra verði bættur og að þeim börnum sem búi við fjárhagsþrengingar verði tryggðar ókeypis skólamáltíðir.

„Við höfum auðvitað áhyggjur af þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu og þess vegna viljum við koma með okkar sjónarmið að borðinu og leggjum því fram leiðarljós til stjórnvalda,“ segir Siv.

Í tillögunum felst einnig að við útfærslu mótvægisaðgerðanna verði sérstök áhersla lögð á þau landsvæði sem verði hvað mest fyrir barðinu á kórónaveirufaraldrinum og tekur Siv þar dæmi um áhrif faraldursins á Suðurnesjum. „Þar eru heimamenn að gera sitt besta í þjónustunni en staðan er afar þung, til dæmis varðandi atvinnuleysi,“ segir hún.